Bikarmeistarar!
Það var sannkallaður Keflavíkurdagur í dag þegar leikið var til úrslita í VISA-bikar karla. Keflavíkurliðið átti leikinn, Keflvíkingar áttu stúkuna og allt að því keflvísk veðurblíða lék við gesti í Laugardalnum. Niðurstaðan var 2-0 sigur á KR-ingum og fjórði bikarmeistaratitill Keflavíkur í höfn. Það er óhætt að segja að það hafi verið sterk liðsheild sem skóp sigurinn. Strákarnir okkar léku frábæra knattspyrnu inn á vellinum. Þjálfararnir lögðu leikinn rétt upp og þeir og liðsstjórnin stýrðu okkar mönnum af öryggi. Og síðast en ekki síst fjölmenntu Keflvíkingar á leikinn og veittu liðinu ómetanlegan stuðning.
Leikjum sumarsins er þá lokið og niðurstaðan er frábær. Fjórða sætið í Landsbankadeildinni, bikarinn til Keflavíkur og sæti í UEFA-keppninni næsta sumar. Og þá er ekkert eftir nema að fagna!
Bikarmeistarar 2006, Keflavík.
(Mynd frá Víkurfréttum)