Bikarsigur á Einherja
Keflavík sigraði lið Einherja frá Vopnafirði 2-0 í 32 liða úrslitum VISA-bikarsins í gærkvöldi. Stefán Örn Arnarson skoraði bæði mörkin, það fyrra eftir aðeins 50 sekúndur og það síðara á 74. mínútu leiksins. Lið Keflavíkur var mikið breytt frá síðasta leik. Brynjar Örn, Haukur Ingi, Jóhann Birnir og Símun voru hvíldir, Einar Orri var í banni og þeir Alen Sutej og Bjarni Hólm voru á bekknum.
Keflavík var betri aðilinn í leiknum en lið Einherja átti ágætis spretti inn á milli. Markvörður Einherja, Tomislav Bengun, átti góðan leik og varði oft mjög vel en einnig átti Sigurður Donys góðan leik. Annars voru leikmenn Einherja baráttuglaðir og börðust eins og ljón allan leikinn og frammistaða þeirra til fyrirmyndar. Eins og áður sagði voru Keflvíkingar mun sterkari í þessum leik og fengu nokkur ágætis tækifæri til að bæta við mörkum. Ef einhvern á að velja í liði Keflavíkur þá var innkoma Sigurðar Gunnars í vinstri bakvörðinn góð og þá kom Viktor Guðnason sterkur inn á miðjuna í seinni hálfleik. Stefán Örn var duglegur að vanda og var óheppinn að bæta ekki við þriðja markinu sínu.
Dregið verður í 16 liða úrslitin á mánudaginn kemur. Í pottinum verða Keflavík, FH, Valur, Fram, Fylkir, Breiðablik, KR, Grindavík, ÍBV, KA, Þór A., Fjarðarbyggð, HK, Reynir S., Víðir og Höttur. Eins og sjá má eru fjögur Suðurnesjalið í pottinum. Leikið verður í 16 liða úrslitunum 5. og 6. júlí.
Keflavík: Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði, Þorsteinn Atli Georgsson, Tómas Karl Kjartansson, Nicolai Jörgensen (Sigurður Gunnar Sævarsson 46.), Magnús Sverrir Þorsteinsson (Bessi Víðisson 55.), Jón Gunnar Eysteinsson, Magnús Þór Magnússon (Viktor Guðnason 62.), Stefán Örn Arnarson, Magnús Þórir Matthíasson og Hörður Sveinsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson markvörður, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson og Bojan Stefán Ljubicic.
Dómari: Hans Kristján Scheving.
Sigurður Gunnar stóð sig vel í sínum fyrsta leik og er hér í baráttu við Sigurð Donys.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)