Fréttir

Knattspyrna | 21. júlí 2003

Bikartap hjá 2. flokknum

Fram - Keflavík 2. flokkur


Um helgina lék 2. flokkur Keflavíkur gegn Fram í 8 liða úrslitum í bikarkeppninni.  Hófst leikurinn rólega og var aðallega í höndum Keflavíkur framan af hálfleiknum.  Eftir um hálftíma leik komust Framarar meira inn í leikinn og fóru að skapa sér mýmörg færi sem enduðu yfirleitt í höndum Magga í markinu.  Þegar 5 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik skoruðu Framarar fyrsta mark leiksins.  Seinni hálfleikur hófst með feiknarkrafti af hálfu Framara en Keflvíkingar vörðust.  Eftir 70 mínútna leik skoruðu Framarar úr hornspyrnu.  Fram vann mjög verðskuldaðan 2-0 sigur.

Leikmenn virtust koma mun betur stemmdir eftir hrikalega útreið á móti Skagamönnum 5 dögum áður.  Liðið var töluvert breytt frá síðasta leik.  Óli Jón og Ragnar, úr 3. flokki, voru hvíldir og kom Garðar Sigurðsson inn í þeirra stað en Garðar leikur einnig með 3. flokknum.  Árni tók út leikbann og Einar Ottó á ennþá í meiðslum.  Með nýju leikskipulagi og með leikmenn í nýjum stöðum tóku Keflvíkingar leikinn í sínar hendur.  Leikskipulag Framara gekk út á að stöðva allt spil frá miðjumönnum okkar, þeim Ingva og Bjössa, sem kom að nýju inn í liðið.  Tókst leikmönnum Keflavíkur með ágætum að leysa það framan af fyrri hálfleiks enda stilltu Framarar upp 4-3-3.  Með góðum sendingum frá Ingva upp kantinn, náðum við að skapa nokkur færi fyrsta hálftímann.  Aron, sem hafði fengið 2 leikja hvíld, og Garðar, sem var að leika sinn fyrsta 2. flokks leik, náðu oft að skapa usla fyrir framan teiginn en því miður var ekkert sem ógnaði marki Framara verulega.  Á 40. mínútu sóttu Keflvíkingar upp hægri kantinn og settu nokkra pressu að marki Framara.  Markmaður þeirra greip fyrirgjöfina vel og sendi boltann beint upp miðsvæðið þar sem Ömmi og Steini hikuðu augnablik og snöggur sóknarmaður Framara nýtti sér mistök þeirra til hins ítrasta og skoraði.  Kveikti þetta í Keflvíkingum næstu mínúturnar en Framarar héldu boltanum innan liðsins.   Þegar seinni hálfleikurinn hófst breyttu Framarar leikskipulaginu í 4-4-2 og ætluðu að þétta miðsvæðið.  Reyndist þetta vera banabiti fyrir okkar stráka, sem misstu boltann oft í seinni hálfleik.  Keflvíkingar, sem hafa hingað til spilað boltanum mjög vel, spiluðu á köflum mjög illa og engu líkara en þessi breyting í seinni hálfleik hafi dregið úr þeim allan mátt.  Til tíðinda dró á 70. mínútu þegar að Framarar skoruðu eftir hornspyrnu.  Er þetta áttunda markið sem Keflvíkingar fá á sig eftir hornspyrnu í sumar sem er mikið áhyggjuefni fyrir liðið.  Liðið virtist brotna saman við markið og svo virtist sem öll liðamót hafi skyndilega orðið máttlaus því sendingarnar urðu sífellt verri og allur kraftur farinn úr hlaupum leikmanna.

Leikmenn komu klárir í leikinn en einbeitningu virtist vanta í seinni hálfleik sem varð þeim að falli.  Maggi átti góðan leik í markinu og var bestur í liði Keflvíkinga.  Aron átti ágætan leik en getur gert mun betur sem og Ingvi og Bjössi, sem sáu um mest allt spil liðsins.  Vörnin varðist ágætlega í fyrri hálfleik en í þeim seinni gætti einbeitingarleysis, aðallega hjá bakvörðum.  Strákarnir verða að taka sig saman í andlitinu ef það á ekki að fara illa í sumar.  Leikgleðin sem einkenndi þetta lið á undirbúningstímabilinu er nánast horfin og virðist sem strákarnir hafi týnt sjálfstraustinu.

Næsti leikur er á þriðjudaginn 22. júlí og verður á móti HK í Fagralundi (Kópavogi) og hefst leikurinn klukkan 20:00.

Keflavík 4-4-2
Byrjunarlið:
1   Magnús Þormar (M)
2   Brynjar Magnússon
3   Ögmundur Erlendsson (F)
4   Þorsteinn Georgsson (út 85´)
5   Arnar Magnússon
6   Fannar B. Gunnólfsson (út 63´)
7   Ingvi Rafn Guðmundsson
8   Björn Bergmann Vilhjálmsson
9   Arnar Halldórsson
10  Garðar Sigurðsson (út 78´)
11  Aron Smárason

Varamenn:
12  Guðmundur Þórðarson (M)
13  Jóhannes Bjarnason (inn 85´)
14  Garðar Karlsson
15  Davíð Helgason (inn 78´)
16  Jóhann Ingi Sævarsson (inn 63´)

Starfsmenn:
Jóhann Emil Elíasson (þjálfari)
Magnús Daðason (aðstoðarþjálfari)
Ísak Jónsson Guðmann (sjúkraþjálfari)


Jóhann Emil Elíasson þjálfari skrifar