Fréttir

BIKARÚRSLIT: Tíunda skipti í úrslitum
Knattspyrna | 14. ágúst 2014

BIKARÚRSLIT: Tíunda skipti í úrslitum

Þegar bikarsaga Keflavíkur er skoðuð kemur í ljós að úrslitaleikurinn á laugardag er 152. leikur liðsins í bikarkeppni KSÍ.  Keflavík hefur níu sinnum áður leikið til úrslita í bikarnum en úrslitaleikirnir eru reyndar tíu enda þurfti tvo leiki til að útkljá keppnina árið 1997.  Auk þess hefur liðið tólf sinnum leikið í undanúrslitum.

Keflavík lék fyrst til úrslita í bikarkeppninni árið 1973 en tapaði þá fyrir Fram.  Tveimur árum síðar landaði liðið fyrsta bikarmeistaratitli félagsins með sigri á ÍA árið 1975.  Á níunda áratugnum komst Keflavík þrisvar sinnum í úrslit en hafði ekki erindi sem erfiði, liðið tapaði fyrir ÍA árið 1982, gegn Fram 1985 og gegn Val 1988.  Keflavík lék aftur til úrslita árið 1993 en tapaði þá fyrir ÍA en vann svo langþráðan sigur árið 1997 eftir tvo dramatíska leiki gegn ÍBV.  Bikarinn var harðsóttur í það skiptið en liðið vann eftir framlenginu í 8 liða úrslitunum og undanúrslitunum.  Á þessari öld hefur Keflavík svo tvisvar náð í úrslitaleik bikarsins og unnið í bæði skiptin, gegn KA árið 2004 og síðan gegn KR árið 2006.  Þegar Keflavík varð bikarmeistari árið 2004 lék liðið fimm leiki í keppninni, fékk ekki á sig mark og var með markatöluna 9-0.

Hér er yfirlit yfir fyrri úrslitaleiki Keflavíkur.

2006 KR - Keflavík 0-2 Guðjón Árni Antoníusson 21.
Baldur Sigurðsson 30.
2004 Keflavík - KA 2-0 Þórarinn Kristjánsson 11. (v)    
Þórarinn Kristjánsson 26.    
Hörður Sveinsson 89.
1997 Keflavík - ÍBV 0-0 5-4 í vítaspyrnukeppni
1997 Keflavík - ÍBV 1-1 Gestur Gylfason 120.
1993 ÍA - Keflavík 2-1 Marko Tanasic 14.
1988 Keflavík - Valur 0-1  
1985 Fram - Keflavík 3-1 Ragnar Margeirsson 68.
1982 ÍA - Keflavík 2-1 Ragnar Margeirsson 32.
1975 Keflavík - ÍA 1-0 Einar Gunnarsson 34.
1973 Fram - Keflavík 2-1 Steinar Jóhannsson 96.

Myndin með fréttinni er úr Morgunblaðinu 2. október 2006 og sýnir leikmenn Keflavíkur fagna bikarmeistaratitlinum.