Björg Ásta með slitið krossband
Björg Ásta Þórðardóttir fyrirliði meistaraflokks kvenna sleit krossband í fjórða og síðasta leik U-21 landsliðsins í Opna Norðurlandamótinu sem fram fór í Svíþjóð. Björg Ásta hafði spilað alla leiki liðsins og á 3. mínútu leiks um 5. sætið við Finnland lenti Björg í samstuði við finnskan leikmann með fyrrgreindum afleiðingum. Er þetta mikið áfall þar sem Björg Ásta var á leiðinni í skóla í Bandaríkjunum hjá Arizona State University 5. ágúst n.k. Seinka þessi meiðsl för Bjargar til ASU um 6-12 mánuði. Óskum við Björgu Ástu góðs bata og vonumst til að sjá hana sem fyrst með Keflavík í leik.