Bláa liðið af stað
Nú nýlega var byrjað á verkefni sem nefnt hefur verið Bláa liðið en markmiðið með því er að styðja við þjálfun ungra knattspyrnuiðkenda í 3. og 4. flokki kvenna og karla hjá Keflavík.
Þá verður afreksfólki í þessum flokkum boðið á séræfingar með það að leiðarljósi að þeir leikmenn verði í framtíðinni leikmenn meistaraflokka karla og kvenna.
Þjálfarar yngri flokka Keflavíkur munu sjá um æfingar en ætlunin er að fá reglulega gestaþjálfara til að styðja við verkefnið. Það er Magnús Sverrir Þorsteinsson, leikmaður Keflavíkur til margra ára, sem er helsti hvatamaður að þessu verkefni og aðal samstarfsaðili þess en Barna- og unglingaráð Keflavíkur útvegar þjálfara, velur leikmenn til þátttöku o.fl.
Knattspyrnudeildin vonast til að þetta styðji og styrki okkar unga fólk í að ná enn lengra í knattspyrnu.
Á myndinni sést þegar gengið var frá samkomulaginu um Bláa liðið. Þar eru frá vinstri Jón G. Benediktsson formaður Knattspyrnudeildar, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Smári Helgason formaður Barna- og unglingaráðs og Jóhann Birnir Guðmundsson yfirþjálfari yngri flokka Keflavíkur.