Fréttir

Knattspyrna | 12. desember 2003

Bónus styrkir kvennaknattspyrnu í Reykjanesbæ

Bónus verður aðalstyrktaraðili kvennaknattspyrnu í Reykjanesbæ næstu þrjú árin, eða til loka árs 2006. Fyrirtækið mun styrkja meistaraflokk kvenna, sem og 5., 4., 3, og 2. flokk kvenna, til búninga- og boltakaupa á fyrsta ári og styrkir síðan flokkana um ákveðna fjárupphæð öll þrjú árin. Þá mun Bónus gefa verðlaun á eitt knattspyrnumót á ári sem Keflavík skipuleggur og heldur í nafni Bónus fyrir 5., 4., og 3. fl. kvenna.

Í kjölfar opnunar verslunar í Reykjanesbæ fyrr á þessu ári vill Bónus taka þátt í uppbyggingu íþrótta- og æskulýðsstarfs á svæðinu. Þykir forsvarsmönnum Bónus ánægjulegt að geta tekið þátt í að styðja ungar stúlkur til knattspyrnuiðkunar í Reykjanesbæ um leið og hlúð verður að starfi meistaraflokksins.

Bónus mun fá merki fyrirtækisins á búninga allra flokka, auk þess sem Knattspyrnudeild Keflavíkur mun stuðla að því kynna fyrirtækið eins vel og henni er unnt.