Bragðdauft jafntefli í Vesturbænum
Það vantaði ekki baráttuna í gærkvöldi þegar Keflavík heimsótti KR í Frostaskjólið í 4. umferð Pepsi-deildarinnar. Leikurinn fór fram í blíðskaparveðri á flottum KR-vellinum. Leiknum lauk með markalausu jafntefli og trónir Keflavík á toppnum með 10 stig. Ein breyting var gerð á liði Keflavíkur frá því í síðasta leik en Paul McShane lék ekki með vegna meiðsla og tók Jóhann Birnir Guðmundsson stöðu hans á miðjunni. Mikil barátta einkenndi allan leikinn, liðin gáfu fá færi á sér og því lítið um marktækifæri. Jóhann Birnir átti mjög gott skot að marki sem skall í slánni og yfir í byrjun seinni hálfleiks. Á 51. mínútu meiddist Ómar markvörður og kom Árni Freyr Ásgeirsson inn í hans stað og stóð sig vel í sínum fyrsta leik í efstu deild.
Markalaust jafntefli varð niðurstaðan og Keflavík er á toppnum eftir fjórar umferðir með 10 stig, Fram er með 8 stig og Fylkir, Breiðablik, Selfoss og ÍBV með 7 stig. Þrír erfiðir útileikir að baki og liðið er að standa sig feiknavel.
Enn og aftur mættu stuðningsmenn okkar mjög vel og studdu liðið frábærlega.
Næsti leikur okkar í Pepsi-deildinni verður gegn Selfossi í Njarðvík sunnudaginn 30. maí kl 19:15.
-
Keflavík og KR hafa nú leikið 88 leiki í efstu deild. Keflavík hefur unnið 32 leiki og KR 29 en 27 leikjum hefur nú lokið með jafntefli. Markatalan í leikjum liðanna er nú 124-134 fyrir KR-inga.
-
Árni Freyr Ásgeirsson lék sinn fyrsta leik fyrir Keflavík þegar hann kom inn á fyrir Ómar Jóhannsson í seinni hálfleik.
-
Það hefur ekki verið mikið um markalausa leiki hjá Keflavík undanfarin ár. Síðasta sumar lauk útileiknum gegn Stjörnunni með markalausu jafntefli en árið 2008 var skorað í öllum leikjum liðsins. Árin 2007, 2006 og 2005 varð eitt markalaust jafntefli og ekkert árið 2004. Til samanburðar lauk fjórum af 18 leikjum Keflavíkur með markalausu jafntefli árin 1979 og 1982.
-
Keflavík hefur nú tapað einum af síðustu átta útileikjum gegn KR. Tapið kom í fyrra en annars hafa okkar menn unnið tvo leiki og fimm hefur lokið með jafntefli.
Fótbolti.net
KR og Keflavík áttust við í Vesturbænum í kvöld í leik í fjórðu umferð Pepsí deildar karla. Það var yndislegt veður sem mættu þeim 2363 áhorfendum sem komu til að horfa á leikinn. Glampandi sól og smá gola. Fyrirfram hefði mátt búast við miklum stórleik á milli þessara liða. KR sem eru að marga mati með sterkasta lið deildarinnar, þótt að úrslitin úr fyrstu leikjunum hafi ekki sýnt það en þeir fyrir leikinn voru einungis með 2 stig eftir þrjá leiki. Keflvíkingar aftur á móti hafa sýnt allar sínar bestu hliðar í upphafi móts og sátu í toppsæti deildarinnar fyrir leikinn með 9 stig, alla leiki unna.
Það er auðvelt að segja frá því að leikurinn í kvöld stóð aldrei undir nafni sem stórleikur. Það var virkilega fátt um fína drætti og liðin sköpuðu sér lítil sem engin marktækifæri.
Fréttablaðið / Vísir
Leikur KR og Keflavíkur á KR-vellinum var ekki góð skemmtun. Leikurinn endaði með markalausu jafntefli þar sem hvorugt liðið skapaði sér almennilegt færi.
Ómar Jóhannsson markmaður fór meiddur af velli og inn á kom Árni Freyr Ásgeirsson, 18 ára, í sínum fyrsta leik í meistaraflokki. Hann stóð sig virkilega vel og var öruggur í sínum aðgerðum.
Leikurinn fjaraði bara út. Bæði lið reyndu að skapa eitthvað en gekk það illa. Keflvíkingar fengu nokkrar hornspyrnur en fengu ekkert færi upp úr þeim.
Ómar 6 (Árni Freyr 6), Guðjón 6, Alen 5, Bjarni 6, Haraldur 7, Magnús Sverrir 4, Jóhann Birnir 5, Hólmar Örn 5, Magnús Þórir 4 (Brynjar Örn -), Guðmundur 4, Hörður 4.
Morgunblaðið / Mbl.is
KR-ingurinn Willum Þór Þórsson yfirgaf gömlu heimaslóðirnar í Frostaskjólinu örugglega ánægðari en kollegi hans, KR-þjálfarinn Logi Ólafsson. Willum er með Keflvíkingana sína á toppi úrvalsdeildarinnar og þó að þeir hafi tapað sínum fyrstu stigum á tímabilinu í markalausu jafntefli liðanna í Vesturbænum í gærkvöldi er stigið sem fór suður Reykjanesbrautina án efa kærkomið þar suður frá.
Keflavíkurliðið hefur fengið óskabyrjun á þessu Íslandsmóti, þrír sigurleikir og síðan stig á útivelli gegn liðinu sem margir töldu fyrirfram að myndi rúlla öllum upp í sumar. Og Willum er greinilega búinn að þétta raðir Keflvíkinga frá því í fyrra. Þeir gefa ekki mörg færi á sér, spila sterkan varnarleik þar sem miðverðirnir hávöxnu Haraldur Freyr Guðmundsson og Baldur Hólm Aðalsteinsson stigu fá feilspor í gærkvöldi, og eru hættulegir í snöggum sóknum sínum, með snögga og útsjónarsama sóknarmenn.
M: Alen, Bjarni, Haraldur, Hólmar Örn.
Víkurfréttir / VF.is
Keflvíkingar mættu KR í Frostaskjóli í kvöld í markalausum leik. Leikurinn fór heldur hægt af stað en eftir því sem leið á leikinn fór fjörið að aukast. Fyrsta alvöru færið kom á 31. mínútu þegar Bjarni Guðjónsson skaut viðstöðulaust að marki Keflvíkinga en Ómar gerði vel í markinu og kom í veg fyrir að heimamenn kæmust yfir. Þrem mínútum síðar átti Jóhann Birnir, leikmaður Keflavíkur, þrumuskot beint í þverslánna. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks skiptust liðin á að sækja en tókst ekki að skora og því var markalaust í hálfleik.
Eftir sex mínútna leik í síðari hálfleik meiddist Ómar Jóhannsson markmaður Keflvíkinga. Innná í hans stað kom Árni Freyr sem var að leika sinn fyrsta leik með meistaraflokki. Eftir þetta var leikurinn heldur bragðdaufur en á lokamínútunum sóttu Keflvíkingar stíft. Þegar tvær mínútur voru til leiksloka fengu þeir fjórar hornspyrnur í röð en tókst ekki að nýta þær. Síðasta færi leiksins átti svo Björgólfur Takefusa er hann náði skoti á mark Keflavíkur á 92. mínútu en Árni Freyr gerði vel í markinu og sá við skoti Björgólfs. Lokatölur því 0-0 í heldur bragðdaufum leik í Frostaskjóli.
Pepsi-deild karla, KR-völlur, 25. maí 2010
KR 0
Keflavík 0
Keflavík: Ómar Jóhannsson (Árni Freyr Ásgeirsson 53.), Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Magnús Þórir Matthíasson (Brynjar Örn Guðmundsson 71.), Guðmundur Steinarsson, Hörður Sveinsson.
Varamenn: Bojan Stefán Ljubicic, Sigurður Gunnar Sævarsson, Einar Orri Einarsson, Andri Steinn Birgisson, Ómar Karl Sigurðsson.
Gul spjöld: Guðjón Árni Antoníusson (45.), Hólmar Örn Rúnarsson (90.)
Dómari: Valgeir Valgeirsson.
Aðstoðardómarar: Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Viðar Helgason.
Varadómari: Leiknir Ágústsson.
Eftirlitsdómari: Þórður Ingi Guðjónsson.
Áhorfendur: 2363.
Gaui og Bjöggi í nánu sambandi.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)