Fréttir

Knattspyrna | 23. júlí 2008

Breiðablik - Keflavík á fimmtudag kl. 19:15

Breiðablik og Keflavík leika í 8 liða úrslitum VISA-bikars karla fimmtudaginn 24. júlí.  Leikið verður á Kópavogsvelli og hefst leikurinn kl. 19:15.  Keflavík sigraði Stjörnuna í 32 liða úrslitum og FH í 16 liða úrslitum keppninnar en Blikar hafa borið sigurorð af KA og Val.  Liðin mættust einmitt í 8 liða úrslitum í fyrra og þá einnig á heimavelli Breiðabliks.  Þá sigruðu Blikar 3-1 þannig að nú hlýtur að vera komið að okkar mönnum að sigra.  Dómari leiksins verður Einar Örn Daníelsson, aðstoðardómarar hans verða þeir Ólafur Ingvar Guðfinnsson og Smári Stefánsson og eftirlitsmaður KSÍ er Eiríkur Helgason stór-Framari.

Keflavík og Breiðablik hafa fimm sinnum mæst í bikarkeppni KSÍ.  Liðin léku fyrst árið 1962 en þá léku bæðin liðin í 2. deild.  Keflavík vann þann leik 6-1.  Næst mættust liðin á bikarnum árið 1971 og þá sigruðu Blikar 2-1.  Þetta ár lék Breiðablik til úrslita í bikarkeppninni í fyrsta og eina skiptið en tapaði fyrir Víkingum í úrslitaleiknum.  Keflavík og Breiðablik léku síðan í 16 liða úrslitum árið 1973 og lauk þeim með 5-0 sigri Keflavíkur.  Steinar Jóhannsson skoraði þrennu í leiknum.  Þetta ár var komið að Keflavík að komast í bikarúrslit í fyrsta sinn en liðið tapaði úrslitaleiknum gegn Fram.  Næsti bikarleikur liðanna var ekki fyrr en árið 1994 þegar þau mættust í 16 liða úrslitum í Kópavogi.  Leiknum lauk með 0-0 jafntefli en heimamenn sigruðu í vítaspyrnukeppni, 4-3.  Liðin léku svo aftur í fyrra og þá vann Breiðablik 3-1 á heimavelli sínum í 8 liða úrslitum.