Breiðablik - Keflavík á þriðjudag kl. 19:15
Þá er loksins komið að því og Pepsi-deildin að hefjast. Við byrjum á því að heimsækja Breiðablik í Kópavoginn þriðjudaginn 11. maí kl. 19:15. Það er morgunljóst að hér verður um hörkuleik að ræða en sérfræðingar hafa spáð þessum liðum 3. og 4. sæti deildarinnar í sumar. Okkar menn ætla sér auðvitað að byrja mótið af krafti en Keflavík hefur unnið fyrsta leik sinn í deildinni undanfarin þrjú ár. Dómari leiksins verður Þorvaldur Árnason, aðstoðardómarar hans verða Oddbergur Eiríksson og Smári Stefánsson en eftirlitsmaður KSÍ er Jón Sigurjónsson.
Keflavík og Breiðablik hafa leikið 42 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1971. Keflavík hefur unnið 20 leiki og Breiðablik 12 en tíu leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 78-60 fyrir Keflavík. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 5-0 sigur árið 2006 en Breiðablik vann 3-0 sigur á heimavelli árið 1982 og í Keflavík í fyrra. Sjö leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn Blikum í efstu deild; Guðmundur Steinarsson hefur skorað fimm mörk, Haukur Ingi Guðnason fjögur og þeir Magnús Þorsteinsson, Magnús Þórir Matthíasson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árni Antoníusson hafa skorað eitt mark hver.
Keflavík og Breiðablik hafa leikið sjö leiki í næstefstu deild, fyrst árið 1957 og síðast árið 2003. Keflavík vann sex leikjanna en Breiðablik einn og markatalan er 25-6 fyrir Keflavík. Magnús Þorsteinsson skoraði þrjú mörk gegn Breiðabliki í B-deildinni árið 2003 og Hörður Sveinsson eitt.
Liðin hafa leikið sjö leiki í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1961 og þann síðasta í fyrra. Breiðablik hefur unnið fimm leiki en Keflavík tvo en markatalan er þó 17-12 fyrir Keflavík í bikarleikjum liðanna. Guðjón Árni Antoníusson hefur skorað tvö bikarmörk gegn Blikum og Guðmundur Steinarsson eitt.
Síðasta sumar mættust liðin tvisvar í Pepsi-deildinni. Fyrri leiknum á Kópavogsvelli lauk með ævintýralegu 4-4 jafntefli þar sem Keflavik komst í 2-0, Blikar komust í 4-2 og Keflavík jafnaði með tveimur mörkum í lokin. Haukur Baldvinsson skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik í leiknum og þeir Alfreð Finnbogason og Kristinn Steindórsson eitt hvor. Haukur Ingi Guðnason, Magnús Þorsteinsson, Magnús Þórir Matthíasson og Bjarni Hólm Aðalsteinsson skoruðu fyrir Keflavík. Í heimaleiknum fór svo allt í handaskolum hjá okkar mönnum sem misnotuðu m.a. víti í leiknum sem Blikar unnu 3-0. Kristinn Steindórsson, Árni K. Gunnarsson og Alfreð Finnbogason gerðu mörkin. Liðin mættust einnig í undanúrslitum VISA-bikarsins þar sem Breiðablik vann 3-2 í hörkuleik og enduðu sem bikarmeistarar. Guðjón Árni Antoníusson og Símun Samuelsen skoruðu fyrir Keflavík en Elfar Freyr Helgason, Kristinn Jónsson og Guðmundur Pétursson fyrir Breiðablik.
Nokkrir leikmenn hafa leikið með báðum þessum liðum og má þar nefna Kristján Brooks, Kjartan Einarsson, Helga Bentsson og Sigurjón Kristjánsson.
Úrslit í leikjum Breiðabliks og Keflavíkur í efstu deild í Kópavogi hafa orðið þessi undanfarin ár:
2009 | Breiðablik - Keflavík | 4-4 | Haukur Ingi Guðnason Magnús Þorsteinsson Magnús Þórir Matthíasson Bjarni Hólm Aðalsteinsson | ||
2008 | Breiðablik - Keflavík | 2-2 | Sjálfsmark Patrik Redo | ||
2007 | Breiðablik - Keflavík | 2-2 | Marco Kotilainen Guðjón Árni Antoníusson | ||
2006 |
Breiðablik - Keflavík |
2-1 | Sjálfsmark | ||
2001 |
Breiðablik - Keflavík |
2-4 | Guðmundur Steinarsson 2 Gunnar Oddsson Hólmar Örn Rúnarsson | ||
2000 |
Breiðablik - Keflavík |
2-1 | Guðmundur Steinarsson | ||
1999 |
Breiðablik - Keflavík |
2-1 | Rútur Snorrason | ||
1996 |
Breiðablik - Keflavík |
1-1 | Haukur Ingi Guðnason | ||
1995 |
Breiðablik - Keflavík |
1-1 | Ragnar Margeirsson | ||
1994 |
Breiðablik - Keflavík |
1-3 | Ragnar Margeirsson 2 Óli Þór Magnússon |