Brynjar Örn leggur skóna á hilluna
Nú er orðið ljóst að okkar ágæti félagi Brynjar Örn Guðmundsson verður ekki með Keflavík í sumar en hann hefur ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. Brynjar er Keflvíkingur í húð og hár og lék með öllum yngri flokkum Keflavíkur. Hann lék fyrst með meistaraflokki árið 2001 en árið 2004 söðlaði hann um og skipti yfir í Reyni Sandgerði. Brynjar gekk aftur í raðir Keflavíkur árið 2008 og hefur leikið með okkur síðan. Hann hefur leikið 65 deildarleiki fyrir Keflavík og skorað í þeim fjögur mörk. Þá hefur Brynjar leikið 10 bikarleiki og skorað í þeim eitt mark auk tveggja Evrópuleikja og 35 leikja í Deildarbikarnum.
Við þökkum Brynjari fyrir samveruna og samstarfið undanfarin ár og óskum honum góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur.
Hér fylgja með nokkrar vel valdar myndir úr safni Jóns Örvars.