Búningurinn kominn í K-Sport
Keflavíkurliðið hefur vakið verðskuldaða athygli í sumar fyrir góðan leik en búningar liðsins hafa einnig vakið mikla athygli og umtal en þeir eru frá Nike. Eins og margoft hefur komið fram vísar búningur sumarsins til fyrsta Íslandsmeistaratitils Keflavíkur árið 1964. Liðið lék þá í svörtum peysum og hvítum buxum og þannig er Keflavíkurbúningurinn einmitt í sumar. Auk þess er ártalið 1964 fyrir neðan félagsmerkið á peysunni og þar fyrir ofan stendur Fyrsti Íslandsmeistaratitillinn.
Við vekjum athygli á því að Keflavíkurbúningurinn er kominn í sölu í versluninni K-Sport, Hafnargötu 29. Í frétt i Víkurfréttum er haft eftir eiganda verslunarinnar, Sigurði Björgvinssyni, að búningurinn hafi þegar vakið mikla athygli.
Þá er ekkert annað eftir en að hvetja stuðningsmenn Keflavíkur og aðra áhugamenn til að tryggja sér búning.