Deildarbikarinn búinn þetta árið
Keflavík er úr leik í Deildarbikar karla eftir tap gegn Víkingi í Reykjaneshöllinni í gærkvöldi. Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma og framlengingu og því varð að grípa til vítaspyrnukeppni. Eftir að bæði lið höfðu tekið fimm spyrnur var staðan enn jöfn, 3-3, og komið að bráðabana. Víkingar skoruðu þar úr sinni fyrstu spyrnu en markvörður þeirra varði og Víkingar fóru því með sigur af hólmi.
Leikurinn sjálfur var frekar bragðdaufur eins og úrslitin gefa til kynna. Víkingar voru sterkari lengst af og voru mun ákveðnari og einbeittari en okkar menn. Okkur gekk illa að ná upp spili, sérstaklega framan af leiknum. Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var einn leikmaður Víkinga rekinn af velli fyrir að veitast að Guðjóni eftir að hafa brotið illa á Hólmari. Eftir það sótti Keflavíkurliðið nokkuð án þess að ná að nýta sér liðsmuninn, illa gekk að skapa færi en nokkur skot af færi fóru ýmist yfir eða framhjá.
Í framlengingunni reyndu Keflvíkingar að knýja fram sigur einum fleiri en Víkingar áttu nokkrar hættulegar skyndisóknir. Á síðustu andartökunum átti Hólmar Örn síðan skot rétt yfir af markteig eftir harða sókn. En hvorugu liðinu tókst að koma tuðrunni í netið og því réðust úrslitin af vítapunktinum eins og áður sagði.
Það hljóta að vera vonbrigði að detta út úr keppninni í 8 liða úrslitum eftir gott gengi í riðlakeppninni þar sem liðið sigraði sinn riðil. Víkingar voru í 4. sæti í hinum riðlinum en í gær voru þeir að leika vel og gáfu okkar mönnum ekkert eftir. Sreten Djurovic lék í vörninni og virkaði frekar óöruggur, sérstaklega í byrjun.
Reykjaneshöllin, 29. apríl 2004
Keflavík 0
Víkingur 0
Vítaspyrnukeppni: 3-4
Keflavík (4-4-2): Magnús Þormar - Guðjón Antoníusson (Brynjar Örn Guðmundsson 56.), Stefán Gíslason, Sreten Djurovic, Ólafur Ívar Jónsson - Hólmar Örn Rúnarsson, Zoran Ljubicic, Jónas Guðni Sævarsson, Scott Ramsay - Hörður Sveinsson, Magnús Þorsteinsson (Guðmundur Steinarsson 73.)
Varamaður: Rúnar Dór Daníelsson, Sigurður Markús Grétarsson, Haraldur Axel Einarsson
Gul spjöld: Guðmundur Steinarsson (90.), Ólafur Ívar Jónsson (100.)
Dómari: Gylfi Þór Orrason
Aðstoðardómarar: Örn Bjarnason og Gunnar Sverrir Gunnarsson
Eftirlitsdómari: Eysteinn B. Guðmundsson