Fréttir

Knattspyrna | 27. mars 2009

Dói sextugur

Heiðursmaðurinn Þórólfur Þorsteinsson heldur í dag, 27. mars, upp á 60 ára afmæli sitt.  Þórólfur, sem alltaf er kallaður Dói, hefur um árabil starfað fyrir meistaraflokk karla hjá Keflavík.  Dói hefur m.a. séð um búninga liðsins og annað sem til hefur fallið í leikjum, æfingum og ferðalögum Keflavíkurliðsins.  Fyrir utan að vinna þessi störf af vandvirkni og alúð er Dói mikill ljúflingur og hvers manns hugljúfi.  Knattspyrnudeild Keflavikur sendir Dóa og fjölskyldu hans innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins og vonar að deildin muni njóta krafta hans áfram á komandi árum.

Við fengum nokkrar kveðjur til Dóa sem við birtum hér að neðan ásamt nokkrum myndum úr safni Jóns Örvars.

 

Blessaður Dói, ég óska þér og stórfjölskyldu þinni innilega til hamingju með daginn.  Það er fólk eins og þú sem eru lykilmenn í íþróttafélögum landsins og gefa þeim lit.  Samstarf okkar hefur verið til fyrirmyndar allt frá því er við kynntumst og er aðdáunarverð sú natni, samviskusemi, nákvæmni og ekki síst sá mikli áhugi sem þú sýnir í kringum starf þitt við fótboltaliðið okkar og já okkur alla sem að liðinu koma.  Þær eru margar hverjar ógleymanlegar stundirnar og augnablikin sem við höfum lifað saman á undanförnum árum en þó finnst mér alltaf skemmtilegast að sjá þig njóta þín í kringum strákana, ljómandi af ánægju að hirða af þeim svitastorkin leikmannafötin! 
Njóttu dagsins með fjölskyldu þinni Dói minn, en þó ekki á gulum stað......
Uss, sextugsafmæli, hljóta að vera svakalegir desertar þar!!!
 
Kristján Guðmundsson,
Keflavík FC

 

Sæll, Dói minn, og til hamingju með daginn.  Það er búið að vera virkilega ánægjulegt að starfa með þér undanfarin ár og megi árin verða mörg í viðbót.  Mikið eru strákarnir í liðinu heppnir að hafa svona mann eins og þig, stjanandi við þá í búningsklefanum og á hliðarlínunni ár eftir ár.  Já, þær eru svo margar góðar stundirnar sem við höfum átt saman með strákunum og liðstjórninni.  Allar ferðirnar sem við höfum farið með liðinu, innanlands og til útlanda í æfingabúðir og að spila í Evrópukeppninni hafa verið ógleymanlegar.
Njóttu dagsins, Dói minn, og hafðu það sem allra best.

Jón Örvar Arason,
Keflavík FC

 

Innilega til hamingju 60 ára afmælið Dói minn.  Það var mér sönn ánægja í formannstíð minni að starfa með sveitunga mínum og Stöðfirðingi að málefnum knattspyrnunnar í Keflavík.  Það er hvalreki fyrir Keflavík að hafa svona öðling í okkar röðum og vonandi á Keflavík eftir að njóta krafta þinna um ókomin ár.

Rúnar V. Arnarson

 

Dói, eins og hann er kallaður. hefur verið okkur innan handar í nokkur ár og hefur hann verið ómissandi í okkar undirbúningi fyrir leiki , alltaf hægt að treysta á hann enda toppmaður á ferð.
Innilega til hamingju með daginn.

Þinn félagi, Magnús Sverrir.

 

Það er ómetanlegt fyrir fótboltann í Keflavík að eiga Dóa að.  Hann er einn af lykilmönnum hópsins og það sést alltaf þegar Dóa vantar.  Þeir hlutir sem að hann sér um, það gerir það enginn eins og hann.  Dói vill líka allt fyrir mann gera, hann er öðlingur frá toppi til táar.  Dói, innilegar hamingju óskir með daginn.  Vona að þú eigir góðan dag, það er heiður fyrir mig að þekkja mann eins og þig.

Kveðja,
Gummi St. og fjölskylda.

 

Dói er drengur góður, ég er búinn að þekkja kappann í ca. 10 ár og fékk hann til starfa fyrir deildina á sínum tíma og þá sem hliðvörð á leikjum Keflavíkur.  Dói er skemmtilegur karakter sem er ekki hægt annað en að líka vel við, alltaf tilbúinn að vinna fyrir fótboltan og er mikill fengur fyrir Knattspyrnudeildina að hafa slíkan öðling innan sinna raða.  Ég vil fyrir hönd knattspyrnudeildarinnar óska honum innilega til hamingju með þennan stóra dag.

Þorsteinn Magnússon,
formaður Knattspyrnudeildar

 

Það er erfitt að finna mann sem leggur sig jafn mikið fram fyrir liðið og hann Dóa.  Hann vinnur ómetanlegt starf á bak við tjöldin við að láta okkur strákunum í liðinu líða vel í klefanum, hvort sem það er fyrir leik eða æfingu.  Hann lætur vel í sér heyra á bekknum enda er hann Keflvíkingur í húð og hár (aðallega húð samt) og ef hann væri ekki með stöðu á bekknum hjá okkur er ég viss um að hann væri staddur upp í stúku við hliðina á Joey Drummer og betur þekktur sem Dói Nikka.  Án hans væri Keflavíkurliðið ekki jafn sterkt og það er og það er gott að hann er ennþá ungur og efnilegur þannig að við getum vonast til þess að hann verði með okkur í mörg ár í viðbót.

Kveðja,
Ómar Jóhanns

 

Til þess að lið haldist saman þurfa margir samspilandi þættir að vinna saman.  Dói er einn hlekkurinn í keðjunni sem býr til okkar lið.  Við sem höfum verið með Dóa í nokkur ár vitum hvað það er gott þegar allt er á sínum stað og hvernig allt fer fjandans til í þau örfáu skipti sem hann hefur forfallast.  Dói er ekki bara meistari heldur er hann búiningameistari.
Kæri Dói, til hamingju með 60 árin

Kveðja,
Guðjón Árni

 

Þórólfur Þorsteinsson, oftar þekktur undir nafninu Dói, hefur starfað mikið innan knattspyrnudeildar, dæmt í yngri flokkum og hefur mikið snúist í kringum meistaraflokk karla og hefur verið nánast einn af liðinu undan farinn ár.  Mætt á æfingar, leiki og farið í ferðir með liðinu.  Öll lið þurfa búninga og hefur Dói séð um að þeir séu í góðu lagi, þvegið, brotið saman og hengt upp og séð til þess að allt sé klárt fyrir strákanna þegar í leikinn er komið.  Það er ómetanlegur stuðningur fyrir knattspyrnudeildina að hafa slíkan mann innan sinna raða.  Dói er ljúflingur, einlægur, kátur og ekki spillir að hann spilar á harmonikku.  Heill þér sextugur félagi.  Innilegar hamingjuóskir á þessu merku tímamótum í þínu lífi.  Fjölskyldu þinni færi ég einnig hamingjuóskir og þakkir fyrir lánið á þér til handa knattspyrnudeildarinnar.  Megi knattspyrnudeildin halda áfram að njóta þinna krafta á komandi árum.  Áfram Keflavík.

Einar Haraldsson,
formaður Keflavíkur

 


Einar Haraldsson, formaður Keflavíkur, afhendir Dóa starfsbikar félagsins.


Tilbúinn með búningana sumarið 2006.


Dói fylgist með strákunum sínum.


Dói og Jón Örvar á Canela 2006.


Dói með kaffibollann sinn í Evrópuleik gegn FC Midtjylland sumarið 2007.


Einar Aðalbjörns og Dói á Tyrklandi 2008.


Kominn í sundlaugina, Tykland 2008.


Dói í góðum félagsskap í Tyrklandi.


Flottur í Tyrklandi 2008.


Með Fal og Kenneth.


Á bekknum með góðum mönnum, Tyrkland 2008.


Dói í góðum málum.