Fréttir

Knattspyrna | 23. ágúst 2005

Dramatík hjá 3. flokki kvenna

3. flokkur kvenna heimsótti lið Vals á Hlíðarenda í gær og var leikurinn spilaður á aðalvellinum.  Leikurinn skipti bæði lið miklu máli um að komast í úrslitakeppnina og mátti hvorugt liðið við því að tapa í þessari baráttu.

Valur byrjaði leikinn af meiri krafti og sóttu nokkuð stíft að marki Keflavíkur án þess þó að skapa einhvern usla.  Okkar stelpur virkuðu hálf stressaðar og voru óákveðnar í sínum aðgerðum.  Einnig voru þær að losa boltann alltof fljótt og þá oftast bara sent eitthvað til að vera ekki of lengi með boltann ef eitthvað mundi klikka.  Valur náði síðan forystu; eftir fyrirgjöf utan af kanti náði Valsstelpa að hoppa hæst og skallaði knöttinn í markið, algjörlega óverjandi fyrir Ingey sem stóð í markinu í fjarveru Önnu sem lá veik heima.  Valur jók síðan forystuna með góðu skoti fyrir utan teig sem lá í netinu, staðan í leikhlé 2-0 Val í vil og útlitið ekki gott.

Það var allt annað lið sem kom í seinni hálfleikinn, þvílíkur kraftur sem nú kom og allt sem því fylgdi.  Lið Vals átti ekki roð í stelpurnar og bara spurning hvenær við næðum að skora.  Það gerðu stelpurnar er um fimmtán mínutur voru liðnar af seinni hálfleik en þá skoraði Birna Marín með góðu skoti.  Áfram hélt pressan og t.d. átti Helena Rós skot sem hafnaði í þverslá.  Valur reyndi hvað þær gátu að sækja en allt stoppaði á miðjunni eða vörnin sá um þær.  Að lokum var úthald þeirra búið en við áttum töluvert inni.  Er um tíu mínutur voru eftir af leiknum náði Bergþóra að jafna leikinn með skoti af um 25 metrum og knötturinn steinlá í marki Vals.  Nú upphófst mikil dramatík og látlaus pressa af okkar hálfu.  Mínúturnar liðu og virtist leikunum ætla að ljúka með jafntefli.  En okkar stelpur voru ekki á því,.  Þegar um tvær mínutur voru til leiksloka fengum við þrjár hornspyrnur í röð og úr þeirri þriðju myndaðist mikið klafs í markteig Vals og náði Eva að reka tána í knöttinn og skora sigurmarkið, 3-2 Keflavík í vil.

Mynd: Eva skoraði sigurmarkið rétt fyrir leikslok

Er flautað var til leiksloka braust út mikil gleði hjá okkar stelpum en að sama skapi braust út mikill grátur hjá Valsstelpum enda draumurinn hjá þeim um að komast í úrslit úr sögunni þetta árið.  Okkar stelpur sýndu gríðarlegan karakter í seinni hálfleik eftir að vera undir 2-0, svona comeback minnti mig á úrslitaleikinn í Evrópukeppninni sællar minningar, segi ekki meir!  Til hamingju stelpur, nú eru tveir leikir eftir í riðlakeppninni og því er þetta allt í ykkar höndum að klára dæmið.

3. flokkur, Valur - Keflavík: 2-3 (Birna Marín, Bergþóra, Eva)
Keflavík:
Ingey, Bergþóra, Rebekka, Helga Maren, Ingibjörg, Birna Marín, Helena Rós, Eva, Hildur, Andrea, Karen S., Sigrún, Sonja, Karen H., Fanney.