Fréttir

Knattspyrna | 23. september 2011

Dramatík og tap gegn KR

Enn einu sinni réðust úrslitin í leik Keflavíkur á lokamínútum þegar KR-ingar komu í heímsókn í Pepsi-deildinni.  Gestirnir skoruðu sigurmarkið á lokamínútunum og sigruðu 3-2.  Frans Elvarsson kom Keflavík yfir strax í byrjun en KR-ingar komust yfir með tveimur mörkum Baldurs Sigurðssonar.  Keflavík jafnaði með marki frá Magnúsi Þóri Matthíassyni en Aron Bjarki Jósepsson gerði svo sigurmarkið í blálokin.  Eftir leikinn er Keflavík í 7.-9. sæti deildarinnar með 21 stig.

Næsti leikur er útileikur gegn Víkingum sunnudaginn 25. september kl. 16:00.

  • Leikurinn var 91. leikur Keflavíkur og KR í efstu deild.  Þetta var 31. sigur KR, Keflavík hefur unnið 32 leiki og 28 leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 127-139 fyrir KR.
        
  • Frans Elvarsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild.  Magnús Þórir Matthíasson skoraði sitt þriðja deildarmark í sumar og 7. markið fyrir Keflavík í efstu deild.
              
  • Keflavík tapaði þriðja heimaleiknum í röð gegn KR en þar áður hafði KR-ingum ekki tekist að sigra í Keflavík í fimm leikjum í röð.

Fótbolti.net
,,Svona er boltinn. Það er ekki alltaf gleði í þessu," sagði Frans Elvarsson leikmaður Keflvíkinga eftir 3-2 tap liðsins gegn KR í kvöld.  ,,Það er hrikalega svekkjandi að fá þetta mark á sig í lokin. Mér fannst við vinna okkur vel inn í seinni hálfleikinn og fannst við vera betri í lokin. Það er hrikalega svekkjandi að fá þeta mark á sig en svona er þetta."

Keflvíkingar mæta Víkingi R. og Þór í síðustu tveimur umferðunum en liðið er sem stendur með 21 stig í 7. sætinu, þremur stigum frá falli.
,,Við erum ekkert hólpnir í þessu en ég hef fulla trú á að við klárum þetta, ég hef enga trú á öðru."

Frans var í kvöld að leika sinn þriðja leik í röð í byrjunarliði og hann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild.
,,Mér finnst ég vera að vinna mig inn í úrvalsdeildina. Ég er jákvæður upp á framhaldið að gera og ætla að sanna mig það sem eftir er."

Fréttablaðið / Vísir
KR-ingar sýndu oft á köflum lipra takta og spiluðu vel. Þeir féllu þó í þá gryfju að láta ekki kné fylgja kviði og gengu Keflvíkingar á lagið með sinni alkunnu baráttu og seiglu. Það dugði þó ekki til í þetta skiptið, því miður fyrir heimamenn og keppinauta KR um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu.
Ómar 5, Arnór Ingvi 5 (Ómar Karl -), Guðjón Árni 7, Adam 7, Viktor 4, Andri Steinn 4 (Jóhann Birnir 6), Magnús Sverrir 4, Frans 6, Hilmar Geir 3, Magnús Þórir 6, Guðmundur 4.

Morgunblaðið / Mbl.is
Það var fátt annað en meistaragæfa sem færði KR stigin þrjú gegn Keflavík í áður frestuðum leik í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í gær. KR-ingar unnu 3:2 en það voru sveitungarnir frá Húsavík Baldur Sigurðsson og Aron Bjarki Jósepsson sem skoruðu mörkin. Baldur fyrstu tvö en Aron Bjarki það þriðja þegar komið var fram í uppbótartíma.
M: Hilmar Geir, Frans, Magnús Sverrir, Magnús Þórir.

Víkurfréttir
Leik Keflavíkur og KR í Pepsi deildinni í knattspyrnu sem fram fór á Nettóvellinum í Keflavík, lauk nú fyrir skömmu þar sem KR fór með 2-3 sigur af hólmi en sigurmarkið kom þegar rúmar 92 mínútur voru liðnar.

Það var Frans Elvarsson sem skoraði fyrir Keflavík strax á fyrstu mínútu eftir að Hilmar Geir hafði komist upp að endalínu og gefið flotta sendingu fyrir þar sem Frans skallaði í netið af stuttu færi.  Það var svo Smalinn, Baldur Sigurðsson sem skoraði gegn sínum gömlu félögum eftir 12 mínútur og síðan þá hefur mikið gengið á og leikurinn fjörugur. Stemningin er góð enda fjölmennt á vellinum og Pumasveitin lætur í sér heyra.  Baldur var aftur á ferðinni fyrir KR og skallaði í autt markið eftir góðan undirbúning Kjartans Henry þegar tæpar 5 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Magnús Þórir Matthíasson skoraði á 81. mínútu eftir að hafa fylgt eftir skoti Guðmundar Steinarssonar sem markvörður KR missti klaufalega frá sér.  KR kemst yfir þegar rúmlega 92 mínútur eru liðnar af leiknum með marki eftir hornspyrnu og þannig eru lokatölur í Keflavík í kvöld..

 
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 22. september 2011
Keflavík 2
(Frans Elvarsson 1., Magnús Þórir Matthíasson 81.)
KR 3 (Baldur Sigurðsson 12., 51., Aron Bjarki Jósepsson 90.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Arnór Ingvi Traustason (Ómar Karl Sigurðsson  76.), Guðjón Árni Antoníusson fyrirliði, Adam Larsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Frans Elvarsson, Andri Steinn Birgisson (Jóhann Birnir Guðmundsson  68.), Hilmar Geir Eiðsson, Magnús Þórir Matthíasson, Guðmundur Steinarsson. 
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Brynjar Örn Guðmundsson, Ásgrímur Rúnarsson, Ísak Örn Þórðarson, Grétar Hjartarson.
Gul spjöld: Ómar Karl Sigurðsson (87.), Frans Elvarsson (90.).

Dómari: Erlendur Eiríksson.
Aðstoðardómarar: Gunnar Sverrir Gunnarsson og Halldór Breiðfjörð Jóhannsson. 
Eftirlitsdómari: Eyjólfur Ólafsson.




Frans skorar strax í byrjun.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)