Fréttir

Knattspyrna | 21. júní 2007

Dramatískur útisigur gegn Víkingum

Keflavík er komið í 2. sæti Landsbankadeildarinnar eftir dramatískan sigur gegn Víking á útivelli.  Lokatölur urðu 2-1 og kom sigurmarkið á elleftu stundu.  Fyrri hálfleikur var markalaus en Þórarinn kom okkar mönnum yfir á fyrstu mínútu seinni hálfleiks.  Guðjón átti þá sendingu fyrir markið og Þórarinn skoraði með hörkuskoti úr vítateignum.  Glæsilega gert og Þórarinn að skora í fjórða leiknum í röð í deildinni.  Víkingar jöfnuðu leikinn um fimmtán mínútum fyrir leikslok þegar Sinisa Kekic skoraði úr víti.  Við það upphófust átök á marklínunni sem lauk með því að Kekic var sendur af velli með rautt spjald.  Ekki var allt búið enn og undir lok leiksins var dæmt víti hinum megin þegar Baldur var togaður niður í teignum.  Guðmundur skoraði af öryggi úr vítinu og tryggði mikilvægan sigur.  Ekki var allt búið enn því Hörður Bjarnason var rekinn út af með sitt annað gula spjald.

Eftir leikinn er Keflavík í 2. sæti deildarinnar með 14 stig eftir sjö leiki, fimm stigum á eftir toppliði FH.  Víkingar eru í 6.-7. sæti með 8 stig.  Næsti leikur Keflavíkur er heimaleikur gegn Fylki miðvikudaginn 27. júní kl. 19:15.


Morgunblaðið
„Það var heldur betur sætt að vinna þetta svona í lokin og sérstaklega eftir að þeir jöfnuðu úr þessu víti. Við ætluðum að sækja þrjú stig og eftir að
Fylkir og Valur töpuðu er ljóst að einhverjir verða að halda í við FH og það er ekki verra að það séum við,“ sagði sigurreifur Baldur Sigurðsson, miðjumaður Keflvíkinga, en hann og Jónas Guðni Sævarsson höfðu yfirhöndina á miðjunni í leiknum. Kantmenn liðsins sköpuðu einnig usla með tækni sinni. Víkingar vörðust vel og þar fór fremstur í flokki fyrrnefndur Grétar og sömuleiðis Jökull Ingi Elísabetarson.

M:
Guðjón, Guðmundur Mete, Jónas, Baldur, Marco, Símun, Þórarinn.

Fréttablaðið
„Ég braut á honum, fyrir utan teig, bara til að láta hann ekki skora af því það var búið að flagga. Þetta var lítið brot en svona er þetta. Svo kemur vítið og hann slær mig í hálsinn. Réttlætinu var svo bara fullnægt með vítinu í lokin. Við vorum betri allan leikinn og áttum sigurinn skilinn,“
sagði Guðjón Árni í leikslok.

Magnús Gylfason, þjálfari Víkinga, var að vonum svekktur. „Það er skelfilegt að tapa á síðustu mínútunni en ég sá ekki hvort um víti væri að ræða. Ég var 60 metra frá en dómaratríóið rak svo mann útaf vegna þess sem línuvörðurinn sá af 70 metra færi. Ég vildi líka sjá rautt spjald á manninn sem braut á Kekic, ég skil ekki þessa línu. En þegar allt kom til alls skildi það á milli að við vorum ekki að spila nógu vel og vafaatriðin duttu þeirra megin,“ sagði Magnús.

Ómar Jóhannsson 6, Guðjón Antoníusson 7, Guðmundur Mete 6, Kenneth Gustavsson 6, Branko Milicevic 6, Jónas Guðni Sævarsson 5, Baldur Sigurðsson 5, Símun Samuelsen 7, Marco Kotilainen 7, Þórarinn Kristjánsson 6 (Hallgrímur Jónasson  5), Guðmundur Steinarsson 6.
Maður leiksins: Marco Kotilainen

Víkurfréttir
Leikurinn í kvöld var hin mesta skemmtun og mættu fjölmargir á völlinn í blíðskaparveðri... Símun Samuelsen, leikmaður Keflvíkinga, sagði að leikurinn hafði verið mjög skrýtin en sigurinn sanngjarn. ,,Þetta var bara mjög skrýtin leikur í alla staði. Við fengum fjölmörg tækifæri til að klára leikinn en nýttum þau ekki en í heildina litið þá var þetta sanngjarn sigur.” Aðspurður hvort að vítið sem Keflavík fékk í endann hafi verið rétt sagði Símun að það hlyti að vera fyrst að dómarinn dæmdi það.

Fótbolti.net
Á 75. mínútu varð svo allt vitlaust í Víkinni. Sinisa Kekic fékk þá stungusendingu inn fyrir vörn Keflavíkur að því virtist frá samherja en Oddbergur Eiríksson aðstoðardómari flaggaði Kekic rangstæðan og um leið braut Guðjón Árni Antoníusson hressilega á Kekic. Þegar allir héldu að rangstaða hafði verið dæmd benti Jóhannes Valgeirsson dómari á punktinn og dæmdi vítaspyrnu við mikla reiði Keflvíkinga.

Jóhannes sagði leikmönnum Keflavíkur að sendingin hafði borist af leikmanni Keflavíkur og ef svo er þá réttilega var engin rangstaða en vekur þá furða afhverju Guðjón Árni fékk ekki reisupassann því Kekic var augljóslega kominn einn gegn markverði.

Eftir langar umræður og gult spjald á Símun Samuelsen fór Sinisa Valdimar Kekic á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi en ballið var þá langt frá því að vera búið. Kekic brunaði inn í markið til að sækja boltann og lenti þá aftur í klafsi við Guðjón Árna sem lá eftir viðskiptin.

Enginn sá hvað gerðist nema aðstoðardómarinn fjær sem fór á tal við Jóhannes dómara. Upp úr þeim samræðum var úrskurðað gult spjald á Baldur Sigurðsson og rautt á Sinisa Kekic fyrir að slá til Guðjóns í viðskiptum þeirra eftir markið.


Víkingsvöllur, Landsbankadeildin, 20. júní 2007

Víkingur 1 (Sinias Kekic víti 73.)
Keflavík 2 (Þórarinn Kristjánsson 46., Guðmundur Steinarsson víti 90.)
Keflavík:
Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustavsson, Branko Milicevic (Nicolai Jörgensen 82.) - Baldur Sigurðsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen - Marco Kotilainen, Guðmundur Steinarsson, Þórarinn Kristjánsson (Hallgrímur Jónasson 68.).
Varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson, Þorsteinn Georgsson, Einar Orri Einarsson, Magnús Þorsteinsson, Stefán Örn Arnarson.
Gul spjöld: Símun Samuelsen (73.), Baldur Sigurðsson (73.)

Dómari: Jóhannes Valgeirsson.
Aðstoðardómarar: Einar K. Guðmundsson og Oddbergur Eiríksson.
Eftirlitsmaður: Guðmundur Sigurðsson.

Áhorfendur: 700.


Okkar menn fagna sigurmarki Guðmundar á lokamínútunum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)