Dregið í InterToto-keppninni
Í morgun var dregið í InterToto-keppninni en eins og flestir vita tökum við þátt í keppninni í sumar. Enn er ekki orðið endanlega ljóst hvaða lið leika í keppninni enda lýkur flestum deildum í Evrópu ekki fyrr en í vor. Í drættinum var löndunum því raðað saman. Alls taka 49 lið þátt í keppninni og leika í þremur umferðum. Ellefu lið komast áfram úr 3. umferðinni og fara inn í UEFA-keppnina. Leikið er heima og heiman í hverri umferð.
Í 1. umferðinni lendum við á móti liði frá Norður-Írlandi. Miðað við stöðuna í deildinni þar eru það Dungannon, Cliftonville og Ballymena sem berjast um það sæti. Fyrri leikirnir í 1. umferð verða 17.-18. júní en þeir síðari 24.-25. júní. Komist Keflavík áfram í 2. umferð verða andstæðingar okkar norska liðið Lilleström. Það lið er kunnuglegt enda hafa fjölmargir íslenskir leikmenn leikið með því í gegnum árin, m.a. Rúnar Kristinsson, Ríkharður Daðason, Gylfi Einarsson og Heiðar Helguson. Næsta skref þar á eftir er síðan 3. umferðin og þá tekur við lið frá Englandi. Eins og stendur er það Bolton sem situr í InterToto-sæti þar í landi en það er aldrei að vita nema stórlið eins og Arsenal endi í keppninni.
Það er því spennandi keppni framundan, leikið verður á Keflavíkurvelli og með góðum stuðningi eiga okkar strákar fína möguleika á að gera góða hluti í keppninni.
Umferð | Andstæðingar | Fyrri leikur | Seinni leikur |
1. umferð | Norður-Írland | 17.-18. júní | 24.-25. júní |
2. umferð | Lilleström | 1.-2. júlí | 8.-9. júlí |
3. umferð | England | 15.-16. júlí | 22. júlí |