Dýrmæt stig í súginn á Akranesi
Keflavík tapaði dýrmætum stigum á toppi Landsbankadeildarinn þegar okkar menn töpuðu 1-2 fyrir liði ÍA í hörkuleik. Bjarni Guðjónsson kom ÍA yfir með marki úr vítaspyrnu á 32. mínútu. Bjarni var svo aftur á ferðinni á 79. mínútu þegar hann skoraði glæsilegt mark með langskoti sem Ómar náði ekki að verja. Skömmu seinni minnkaði Hallgrímur muninn en í kjölfar marksins var Páll Gísli Jónsson, markmaður Skagamanna, rekinn af leikvelli. Stuttu seinna fór Einar Orri sömu leið og bæði lið luku leiknum með 10 leikmenn innanborðs. Ekki tókst okkar mönnum að jafna þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og ÍA-sigur staðreynd.
Úrslit leiksins og annarra leikja í 9. umferðinni þýða að Keflavík fellur niður í 3. sæti deildarinnar með 17 en ÍA fór upp í 4 sæti og er nú með 14 stig. Næsti leikur Keflavíkur er útileikur í VISA-bikarnum gegn Þrótti miðvikudaginn 11. júlí. Sá leikur fer fram á Valbjarnarvelli í Laugardal og hefst kl. 19:15.
Morgunblaðið
Guðjón Þórðarson þjálfari Skagamanna sagði Bjarna ekki hafa reynt að skora. „...Svo kemur þetta leiðindaatvik. Það er ljóst undir þessum kringumstæðum að hann tekur innkastið, gefur á Bjarna, sem ætlar að sparka aftur fyrir endamörk en þá kemur leikmaður og pressar á hann svo að Bjarni hreinlega hittir ekki boltann. Þetta sést glögglega ef það er skoðað og þeir sem væna Bjarna um óheiðarleika þekkja hann ekki mikið því hann er mjög heiðarlegur leikmaður að eðlisfari og þótti atvikið mjög leitt. Mér fannst atvikið setja alltof mikið mark á hann. Því miður gerast svona atvik í fótboltaleikjum og við verðum bara að halda áfram.“
M: Ómar, Guðmundur Mete, Baldur, Marco, Hallgrímur, Símun.
Fréttablaðið
Síðara mark Bjarna Guðjónssonar, sem tryggði ÍA sigur á Keflavík, á eftir að vera mikið rætt næstu daga. Þá héldu Keflvíkingar að Bjarni myndi afhenda þeim boltann þar sem leikur hafði stöðvast en Bjarni skaut frá miðju og skoraði glæsilegt mark. Það mark skildi liðin að þegar upp var staðið.
Þegar níu mínútur lifðu leiks skoraði Bjarni síðan markið umdeilda. Undirritaður sá ekki alveg aðdragandann að markinu en ef rétt reynist að Bjarni hafi átt að afhenda Keflavík boltann þá er hátterni hans mjög óíþróttamannslegt og honum til mikils vansa. Í kjölfarið varð allt vitlaust og leikmenn gerðu aðsúg að Bjarna.
Ómar Jóhannsson 6, Guðjón Antoníusson 5 (Högni Helgason -), Guðmundur Mete 5 (Magnús Þórir Matthíasson -), Nicolai Jörgensen 5, Branko Milicevic 6, Marco Kotilainen 4, Baldur Sigurðsson 6, Hallgrímur Jónasson 6, Símun Samuelsen 3, Guðmundur Steinarsson 6 (Einar Orri Einarsson -), Þórarinn Kristjánsson 4.
Víkurfréttir
...Það var svo á 79. mínútu að Bjarni Guðjónsson gerði sig sekan um mistök sem munu fylgja honum það sem eftir lifir af ferli hans. Keflvíkingar sendu boltann útaf til að hægt væri að hlúa að meiddum leikmanni ÍA en í staðin fyrir að gefa innkastið aftur til baka á Keflvíkinga fékk Bjarni knöttinn og spyrnti honum í átt að Keflavíkurmarkinu. Ómar í markinu var ekki reiðubúinn þegar skotið fór í háan boga yfir hann og beint í netið. Bjarni sagði þetta hafa verið óviljaverk, en Keflvíkingar voru skiljanlega gríðarlega ósáttir við að markið skildi standa og veittust að Bjarna.
Eftir stendur sú staðreynd að Skagamenn fengu 3 stig út á mark sem er siðlaust með öllu, sama hvort ásetningur hafi verið að baki hjá Bjarna eða ekki. Verður þetta atvik lengi í minnum haft.
Fótbolti.net
Bjarni Guðjónsson sem skoraði umdeilt mark í 2-1 sigri ÍA á Keflavík í gær var í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á Reykjavík FM 101,5 í hádeginu í dag.
Guðjón sagði í viðtali á Sýn í gær að þú hafir komið að honum og viljað gefa Keflvíkingum mark. Er eitthvað til í því?
Já ég spurði hann af því hvort að við ættum ekki að gefa þetta mark af því að ég skoraði þetta mark.
Hverju svaraði hann?
Þú sérð hverju hann svaraði.
Bara þvert nei?
Já.
Gras.is
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga var mjög óhress með framgang Bjarna Guðjónssonar í kvöld þegar hann skoraði annað mark Skagamanna í leik liðanna í kvöld. Hann sakar Bjarna um ódrengilega framkomu og nokkrir leikmanna Keflavíkur eltu hann æfir til búningsherbergja eftir að flautað var af í kvöld.
"Við spörkum boltanum útaf af því leikmaður Skagans þurfti aðhlynningu og ég sé að Bjarni biður um boltann þegar honum er kastað inn á völlinn í stað þess að honum sé bara kastað á línuna eins og venja er. Ég vil reyndar sjá þetta atvik aftur á myndbandi en það er greinilegt að Bjarni lítur upp og sér hvar markvörðurinn var staðsettur áður en hann sparkar boltanum.
Það er alveg pottþétt að hann gerir þetta viljandi - hann þekkir aðstæður hérna og sér hvernig sólin var á lofti. Þetta er bara Bjarna Guðjónssyni til skammar enn eina ferðina og Skagamönnum líka til háborinnar skammar," sagði Kristján í samtali við Þorstein Gunnarsson á Sýn í kvöld.
Sport.is
Í þessu máli liggur niðurstaðan einföld fyrir greinarhöfundi: Sökudólgurinn er ÍA, fórnarlambið er knattspyrnan.
Akranesvöllur, Landsbankadeildin, 4. júlí 2007
ÍA 2 (Bjarni Guðjónsson víti 32., 79.)
Keflavík 1 (Hallgrímur Jónasson 83.)
Keflavík: Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson (Högni Helgason 76.), Guðmundur Mete (Magnús Þórir Matthíasson 84.), Hallgrímur Jónasson, Branko Milicevic - Marco Kotilainen, Baldur Sigurðsson, Nicolai Jörgensen, Símun Samuelsen - Guðmundur Steinarsson (Einar Orri Einarsson 80.), Þórarinn Kristjánsson.
Varamenn: Bjarki Freyr Guðmundsson, Þorsteinn Georgsson, Óttar Steinn Magnússon, Sigurbjörn Hafþórsson.
Rautt spjald: Einar Orri Einarsson (83.)
Dómari: Kristinn Jakobsson.
Aðstoðardómarar: Frosti Viðar Gunnarsson og Þóroddur Hjaltalín Jr.
Varadómari: Ólafur Ragnarsson.
Eftirlitsmaður: Þorvarður Björnsson.
Áhorfendur: 1832.
PUMA-sveitin mætir til leiks á Skaganum.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)