Fréttir

Knattspyrna | 12. júlí 2003

Dýrt jafntefli hjá 4. flokknum

Í síðustu viku lék 4. flokkur karla við Leikni í Reykjavík.  Fyrir leikinn hafði Keflavík spilað 3 leiki, unnið tvo og gert slysalegt jafntefli við Fjölni, 3-3.  Leiknir hafði spilað 4 leiki og unnið þá alla. Flestir telja að baráttan um tvö sæti í úrslitakeppninni muni standa á milli Keflavíkur, Leiknis, Stjörnunnar og kannski ÍBV.  Þessi leikur var því mjög þýðingarmikill fyrir bæði lið.  Keflavík stjórnaði leiknum nánast frá byrjun en Leiknir beitti hættulegum skyndisóknum og úr þeirra fyrstu sókn skoruðu þeir strax á 8.mínútu.  Keflvíkingar héldu áfram að sækja og uppskáru jöfnunarmark á 14.mínútu.  Það var varnarjaxlinn Natan Freyr Guðmundsson sem fann leiðina í netið með hörkuskoti af markteig eftir mikinn barning í vítateiginum eftir hornspyrnu.  Eftir markið héldu Keflvíkingar áfram að stjórna leiknum og voru mun betri aðilinn í leiknum, en mörkin urðu ekki fleiri. Sem dæmi um yfirburði Keflvíkinga þá áttu þeir u.þ.b. 20 skot á mark á móti um 5 skotum Leiknisstráka; þar af höfnuðu 4 skot Keflvíkinga á marksúlunum.

Þetta jafntefli getur orðið Keflvíkingum dýrt vegna þess hve tímabilið er stutt og öll töpuð stig telja í lokin.  Keflavík hefur á að skipa góðu, hávöxnu og líkamlega sterku liði, með leikna og fljóta leikmenn.  Ef haldið er rétt á spilunum þá á þetta lið alveg að komast í úrslitakeppnina og á að geta gert góða hluti þar.  Leiknir hafa á að skipa skemmtilegu liði með sterka vörn, frábæran markmann og mjög fljóta sóknarmenn og það dugði þeim til að halda út og ná sér í eitt stig.