Einstaklingar í samkeppni við Knattspyrnudeild og Björgunarsveitirnar
Til fjölmargra ára hafa Björgunarsveitirnar í Reykjanesbæ og Knattspyrnudeild Keflavíkur staðið að flugeldasölu fyrir áramót og þrettdándann. Báðir þessir aðilar byggja starfsemi sýna á sjálfboðaliðsstarfi og vinna á vettvangi sem til almannaheilla horfir og hafa notað hagnað flugeldasölunnar á hverju ári til uppbyggingar starfsemi sinnar til heilla fyrir íbúa Suðurnesja, hvor á sinn hátt. Á síðastliðnu ári hóf einkaaðili samkeppni við þessa tvo aðila og nú hefur annar einkaaðili bæst í hópinn. Annar þessara aðila slær ryki í augu bæjarbúa með því að auglýsa stuðning sinn við Sunddeild Keflavíkur, m.a. í bæklingi sem sunddeildin sá um að bera í hvert hús í bænum. Það kom okkur knattspyrnumönnum á óvart að félagar okkar í Sunddeild Keflavíkur legðust svo lágt að hjálpa þessum aðila til að grafa undan starfsemi deildarinnar á þennan hátt. Þrátt fyrir töluvert brambolt og að umgangur sé mikill þegar við leitum fanga í fjáröflunum legðumst við ekki svo lágt að taka spena sem félagar okkar hjá Keflavík ættu. Þá eru áhöld um það hvort aðstaðan sem þessi aðili býr við í Njarðvík standist þær reglugerðir sem aðrir flugeldasalar hér í bæ verða að uppfylla. Það er lögreglan og slökkvilið sem hefur umsjón með því að sölustaðir standist kröfur. Við hjá Knattspyrnudeild höfum leitað hófanna með aðra sölustaði hér í bæ en verið hafnað á forsendum þeirra reglna sem eru í gildi. Við erum ekki ósáttir við það að nákvæmir menn sem um þessi mál fjalla bendi okkur á hvað er í lagi og hvað ekki, þeirra orðum treystum við. Knattspyrnudeildin hefur með glöðu geði beygt sig undir þau lög og reglur sem eru í gildi um sölu flugelda og viljum einmitt þakka lögreglu og slökkviliði gott samstarf í þessum málum sem öðrum sem við höfum átt saman við þá að sælda. Knattspyrnudeildin mun því kanna hvort satt reynist að þessi aðili hafi fengið undanþágu frá þeim reglum sem allir aðrir verða að beygja sig undir. Það er ekki í þeim anda sem unnið hefur verið eftir í góðu samstarfi aðila hér í bæ. Við hvetjum bæjarbúa til að versla við Knattspyrnudeildina að Iðavöllum 7 eða Björgunarsveitirnar. ási