Fréttir

Knattspyrna | 15. júní 2010

Eitt stig í safnið

Keflavík og Haukar gerðu 1-1 jafntefli í gærkvöldi í 7. umferð Pepsi-deildarinnar.  Aðstæður til að spila í gær voru afar slæmar, mikill vindur og mikil rigning.

Ómar Jóhannsson var kominn í markið hjá Keflavík eftir meiðsli og stóð sig vel.  Keflavík átti ágætis færi og Hólmar Örn var nálægt því að skora en Daði í marki Hauka varði vel.  Magnús Sverrir átti síðan skot rétt framhjá.  Haukar náðu aldrei að ógna Keflavíkurmarkinu að neinu ráði í fyrri hálfleik og staðan 0-0 í hálfleik.

Keflavík byrjaði seinni með látum og liðið stjórnaði leiknum.  En á 52. mínútu skoruðu Haukar eftir skyndisókn og var Sam Mantom þar að verki.  Keflavík hélt áfram að sækja; Jóhann Birnir átti skalla framhjá og svo komu tvö sláarskot frá Paul McShane og Andra Steini.  Willum gerði tvöfalda skiptingu á 75. mínútu og hún átti eftir að borga sig.  Brynjar Örn Guðmundsson sem kom inn á sem varamaður skoraði á 85. mínútu eftir að hafa brotist upp kantinn og neglt boltanum fyrir, í Daða markvörð og í netið.

Bæði lið eiga hrós skilið fyrir að reyna spila boltanum en það var erfitt í þessu veðri.  Fjögur lið eru nú á toppnum með 14 stig eftir sjö umferðir, Fram, Valur, ÍBV og Keflavík.  Næsti leikur okkar er gegn Fram á Njarðtaksvellinum mánudaginn 21. júní kl. 19:15.

  • Leikurinn var aðeins þriðji leikur Keflavíkur og Hauka í efstu deild og sá fyrsti síðan 15. september 1979.  Aðeins tveir leikmenn í leikmannahópi Keflavíkur í leiknum voru fæddir þá, þeir Jóhann Birnir og Paul McShane.  Guðmundur Steinarsson fæddist rúmum mánuði síðar en pabbi hans skoraði einmitt þrennu í leiknum árið 1979 sem Keflavík vann 4-1.
      
  • Keflavík og Haukar hafa þar með leikið heila þrjá leiki í efstu deild.  Keflavík er með einn sigur en tveimur leikjum hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er 5-2 fyrir Keflavík.
      
  • Mark Brynjars var annað mark hans fyrir Keflavík í efstu deild.  Það fyrra kom í 5-0 heimasigri á Þrótti árið 2008.  Pilturinn hefur skorað þá skorað tvö mörk í 56 leikjum með Keflavík í deild, bikar og Evrópu enda varnarmaður.
      
  • Andri Steinn var í fyrsta skipti í byrjunarliði Keflavíkur í efstu deild.  Hann kom inn í liðið fyrir Hörð sem gat ekki leikið vegna meiðsla.
      
  • Haraldur fyrirliði fékk sitt fjórða gula spjald á tímabilinu og verður því í leikbanni í næsta leik.
     

Fótbolti.net
,,Ég er mjög svekktur með að hafa tapað tveimur stigum en engu að síður gott að koma til baka og ná að jafna," sagði Guðjón Árni Antoníusson varnarmaður Keflavíkur eftir 1-1 jafntefli gegn Haukum í kvöld.

,,Mér fannst við ekki byrja seinni hálfleikinn af nægum krafti en eftir það fórum við að spila boltanum og fengum fullt af skotfærum og hálffærum sem við hefðum átt að nýta."

,,Í staðinn komu Haukarnir og við erum heppnir að þeir settu ekki fleiri en eitt á okkur."

,,Það getur allt gerst. Aðstæður eins og hérna eru bjóða upp á ýmislegt. Samt voru liðin að reyna að spila fótbolta. Það var erfitt með útspörkin sem fóru upp í vindinn en annars voru bæði lið að senda í fætur og opna svæði."

,,Ég hélt við myndum ná að vinna þetta, það var reyndar grísamark sem við skoruðum en ég hélt við myndum ná að skora annað."

Fréttablaðið / Vísir
Jöfnunarmark Keflvíkinga kom svo á 85. mínútu, en þar var að verki Magnús Þórir Matthíasson, hann hljóp upp vinstri kantinn, skaut úr afar þröngu færi og náði að lauma boltanum framhjá Daða Lárussyni í marki Hauka.
Eftir þetta fjaraði leikurinn út og lauk leiknum því 1-1, sanngjörn úrslit í erfiðu fótboltaveðri en Haukar sitja enn við botninn sigurlausir.
Ómar 5, Guðjón 5, Alen 6 (Brynjar Örn -), Bjarni 5, Haraldur 5, Jóhann Birnir 6, Paul 5, Andri Steinn 6 (Magnús Þórir -),  Hólmar Örn 6, Magnús Sverrir 5, Guðmundur 4.

Morgunblaðið / Mbl.is
Willum skipti hins vegar um taktík fyrir þennan leik og lék 4-4-2 með svokallaða demantsmiðju. Leikskipulagið gekk nokkuð vel framan af og voru Keflvíkingar duglegir að sækja upp kantana og þá sérstaklega á Þórhall Dan á hægri kantinum. Svo mikið reyndar að Þórhallur fór út af meiddur á 44. mínútu. Hvort það var sóknarþunga Keflvíkinga að kenna verður hins vegar ósagt. En það þurfti einhvern til að pota boltanum yfir línuna. Andri Steinn Birgisson byrjaði inná í fyrsta skiptið í deildaleik og leysti sína stöðu mjög vel.
M:
Bjarni Hólm, Haraldur, Paul, Andri Steinn, Magnús Sverrir.

Víkurfréttir / VF.is
Keflvíkingar mættu í kvöld Haukum á Njarðtaksvellinum í 7. umferð Pepsi-deildar karla. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Nú eru Keflvíkingar í 4. sæti deildarinnar með 14 stig, jafn mörg stig og topplið Fram en með lakari markatölu. Aðeins 366 manns mættu á leikinn enda var rok og rigning á Njarðtaksvellinum og aðstæður til fótboltaiðkunar ekki góðar.
 
 
Pepsi-deild karla, Njarðtaksvöllurinn, 14. júní 2010
Keflavík 1
(Brynjar Örn Guðmundsson 86.)
Haukar 1 (Sam Mantom 51.)

Keflavík: Ómar Jóhannsson, Guðjón Árni Antoníusson, Alen Sutej (Brynjar Örn Guðmundsson 77.), Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson, Paul McShane, Hólmar Örn Rúnarsson, Andri Steinn Birgisson (Magnús Þórir Matthíasson 77.), Jóhann Birnir Guðmundsson Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Einar Orri Einarsson, Bojan Stefán Ljubicic, Sigurður Gunnar Sævarsson, Ómar Karl Sigurðsson.
Gul spjöld: Haraldur Freyr Guðmundsson (69.), Hólmar Örn Rúnarsson (71.).

Dómari: Einar Örn Daníelsson.
Aðstoðardómarar: Jóhann Gunnar Guðmundsson og Jón Magnús Guðjónsson.
Eftirlitsdómari: Ólafur Ragnarsson.
Áhorfendur: Aðeins 366, enda veðrið afleitt.

Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir.