Fréttir

Knattspyrna | 21. september 2010

Eldri flokkur: Keflavík - Breiðablik í kvöld

Eldri flokkur Keflavíkur á í harðri baráttu um Íslandsmeistaratitilinn, en liðið leikur í kvöld (þriðjudag) gegn Breiðablik í Reykjaneshöll kl. 20:00. Búast má við hörkuleik en þessi lið hafa spilað marga hörkuleiki s.l. ár í þessum flokki. Með sigri í þessum leik eru Keflavíkurpiltar komnir langleiðina með að tryggja sér titilinn, fjórða árið í röð. Síðasti leikur liðsins er svo gegn Reyni S. í Reykjaneshöll á fimmtudaginn kl 20:30.

Það er búið að vera stíft álag á "drengjunum" s.l. vikurnar þar sem mörgum leikjum var frestað í sumar. Á sunnudaginn, eftir leik Keflavíkur gegn FH í Pepsi-deildinni, fóru drengirnir í Mosfellsbæ og öttu kappi við lið Aftureldingar. Bæði lið voru með fullt hús stiga og mátti því búist við hörkuleik, sem úr varð. Eitthvað voru Keflvíkingar vankaðir eftir tap sinna manna gegn FH því Mosfellingar komust í 3 - 0 áður en fyrri hálfleikur var hálfnaður ! Þá tóku drengirnir við sér og sýndu það sem Keflvíkingar hafa löngum verið þekktir fyrir, ódrepandi baráttu, sem skilaði sér í 3 mörkum fyrir hálfleik, staðan því 3 - 3 í hálfleik.  Það var hart tekist á í seinni hálfleik og aðeins eitt mark skorað og kom það í hlut okkar manna að setja sigurmarkið. Mörkin í leiknum gerðu Jóhann Bjarni Magnússon, Sigmar Scheving og markamaskínan Jakob Már Jónharðsson setti 2 mörk, en hann hefur farið mikinn í markaskorun í síðustu leikjum.

Leikskýrsla úr leik gegn Aftureldingu.

Staðan í deildinni.

Markahæstu menn.

 


Ingvar Georgsson smellir kossi á Íslandsbikarinn 2009.