Fréttir

Knattspyrna | 30. ágúst 2010

Eldri flokkur: Keflavík - ÍR í kvöld

Það verður boðið upp á stórleik í eldri flokki í kvöld kl. 20:00 á Iðavöllum 7. Þá eigast við liðin sem spiluðu úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra, Keflavík og ÍR. ÍR-ingar eiga harma að hefna frá fyrra ári og mæta án efa dýrvitlausir til leiks.  Í fyrra þá sigraði ÍR úrslitaleikinn eftir vítaspyrnukeppni, en þar sem ÍR hafði gefið leik í mótinu gátu þeir ekki orðið Íslandsmeistarar og titillinn fór því til Keflavíkur. Bæði lið eru taplaus það sem af er sumri en ÍR tapaði reyndar sínum fyrstu stigum í síðustu viku þegar þeir gerðu 1 - 1 jafntefli við Carl.  Í þeim leik var að sögn allt á suðupunkti og brutust m.a. út slagsmál á milli leikmanna !  Keflvíkingar, sem hafa verið Íslandsmeistarar í þessum flokki s.l. 3 ár, koma vel mannaðir til leiks og ætla ekki að gefa neitt eftir í baráttunni um titilinn.

Leikmannahópur Keflavíkur í kvöld: Ólafur Pétursson (m), Gunnar Oddsson, Garðar Már Newmann, Guðmundur Þór Brynjarsson, Haukur Benediktsson, Jakob Már Jónharðsson, Jóhann B. Magnússon, Jóhann Steinarsson, Jón Ingi Jónsson, Kristján Geirsson, Ragnar Steinarsson og Zoran Daníel Ljubicic.

Í eldri flokki í ár er keppt í einum riðli og efsta lið riðilsins verður Íslandsmeistari. Úrslitakeppni sem verið hefur undanfarin ár hefur verið lögð af þar sem einungis er keppt í einum riðli í stað tveggja áður.

Dómari leiksins verður Skagamaðurinn Ægir Magnússon.

 


Kristján Geirsson og Jóhann B. Magnússon með Íslandsbikarinn 2009.
Þeir verða báðir í eldlínunni gegn ÍR á Iðavöllum í kvöld.