Eldri flokkur með sigur á Fylki
Eldri flokkur Keflavíkur spilaði frestaðan leik gegn Fylki s.l. þriðjudag á Iðavöllum. Yfirburðir Keflvíkinga voru miklir en þeir áttu þó í þeim erfiðleikum sem einkennir mörg lið, þ.e. að koma knettinum í netið! Markahrókurinn Jakob Már Jónharðsson fór þar fremstur í flokki en hann óð í færum í fyrri hálfleik en hafði ekki erindi sem erfiði. Staðan í hálfleik var því 0 - 0. Stíflan brast á 37 mínútu (leiktími er 2 x 35 mín.) en þá fann markamaskínan Jakob Már loks netmöskvana og kom Keflvíkingum í 1 - 0. Jakob var svo aftur á ferðinni á 58. mínútu með sitt 11 mark í sumar og kom Keflavík í 2 - 0. Ingvar Georgsson setti mark á 60 mínútu og körfuboltakappinn Hjörtur Harðarson setti tvö mörk á lokakafla leiksins á 63. og 66. mínútu. Leikar fóru því 5 - 0 fyrir Keflavík og eru piltarnir nú sem áður efstir í deildinni. Næsti leikur liðsins er í Keflavík mánudaginn 3. september gegn Leikni sem er í 3. sæti deildarinnar.
Leikskýrsla
Staðan
Markahæstu leikmenn
Hjörtur Harðarsons hefur leikið mjög vel með Keflavík Eldri og setti tvö mörk gegn Fylki.