Fréttir

Elías Már í U-21 ára landsliðinu
Knattspyrna | 8. október 2014

Elías Már í U-21 ára landsliðinu

Elías Már Ómarsson er í U-21 árs landsliðshópnum sem leikur umspilsleiki gegn Dönum um sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins næsta sumar.  Fyrri leikurinn verður í Álaborg á föstudag en seinni leikurinn á Laugardalsvelli næsta þriðjudag.

Elías Már lék 20 leiki í Pepsi-deildinni í sumar og skoraði í þeim sex mörk.  Hann var valinn efnilegasti leikmaður Keflavíkur á lokahófi deildarinnar um helgina.  Elías lék sinn fyrsta leik með U-21 árs landsliðinu gegn Frökkum í síðasta mánuði.

Varla þarf að taka fram að Keflvíkingurinn Arnór Ingvi Traustason er einnig í hópnum en hann leikur nú með Norrköping í Svíþjóð.

Ari Steinn Guðmundsson og Sindri Kristinn Ólafsson eru í Króatíu með U-19 ára landsliðinu.  Þar tekur liðið þátt í undankeppni Evrópumótsins þar sem mótherjarnir eru Tyrkland, Króatía og Eistland.  Íslenska liðið tapaði gegn Tyrkjum í fyrsta leik sínum en Ari og Sindri voru báðir á bekknum í leiknum og tóku ekki þátt.  Keflvíkingurinn Samúel Kári Friðjónsson skoraði eitt mark í leiknum og lagði annað upp en hann er fyrirliði íslenska liðsins.  Þess má geta að Aron Freyr Róbertsson kom inn á sem varamaður í leiknum en hann er samningsbundinn Keflavík og lék með 2. flokki Keflavíkur/Njarðvíkur í sumar auk þess að leika sem lánsmaður með Njarðvík.