Fréttir

Knattspyrna | 21. október 2005

Elis og Kristinn hjá Mainz 05

Tveir af þjálfurum Keflavíkur, þeir Elis Kristjánsson og Kristinn Guðbrandsson, fóru á dögunum í heimsókn til Mainz 05 í Þýskalandi, en Keflavík lék við liðið í UEFA-keppninni í sumar.  Góð tengsl mynduðust við forráðamenn Mainz og er mikill áhugi er hjá báðum liðum um samstarf með heimsóknum þjálfara og jafnvel leikmanna og yngri liða milli þessara félaga.

Þeim félögum var tekið með kostum og kynjum í Mainz.  Þeir sóttu æfingar hjá öllum flokkum félagsins frá mánudegi til föstudags.  Sátu fundi með þjálfurum og forsvarsmönnum félagsins og fannst þeim mikið til gestrisni þeirra koma.  Yfirþjálfari félagsins Jurgen Klopp gaf sér góðan tíma til að fara með þeim á kaffihús og segja þeim frá málefnum félagsins auk þess sem hann bauð þeim á séræfingu Mainz 05-liðsins og sýndi okkar mönnum velvilja á allan hátt.  Tekin voru viðtöl við strákana í staðarblöðunum í Mainz og voru þeir strax orðnir eins og heima hjá sér, allir þekktu þá.  Okkar menn sátu leikmannafund með varaliðinu og fóru með þeim í leik í Englheim sem Mainz 05 vann 0-2.  Að leik loknum sátu þeir matarboð með leikmönnum beggja liða.  Í lok ferðarinnar var þeim boðið á leik Mainz 05 gegn Bayrer Leverkusen og fór vel um okkar menn í VIP-stúkunni þar sem vel er gert við menn.  Mainz 05 vann leikinn 3-1 og var þetta fyrsti heimasigur liðsins í Bundesligunni í vetur, áður höfðu þeir gert eitt jafntefli og unnið einn leik úti.

 


Elis og Kristinn ásamt Jurgen Klopp, þjálfara Mainz.

 


Æfing hjá þeim yngstu hjá Mainz og það er byrjað snemma.