Endað með sigri á Blikum
Keflavík vann lið Breiðabliks 4-2 í þriðja leik liðsins á jafnmörgum dögum í æfingaferðinni á Canela á Spáni. Okkar menn voru þungir í fyrri hálfleik og Blikar leiddu með einu marki eftir fyrri hálfleikinn. Allt annað var að sjá til Keflavíkurliðsins í seinni hálfleiknum og það lék af miklum krafti. Guðmundur Steinars jafnaði með góðu marki úr aukaspyrnu en Blikar komust aftur yfir með enn glæsilegra aukaspyrnumarki. Símun jafnaði aftur með frábæru marki eftir hraða sókn. Fyrirliðinn og Færeyingurinn voru ekki hættir og bættu hvor við einu marki og lokastaðan 4-2. Heitt var í veðri meðan á leiknum stóð en leikmenn liðanna sýndu ágæt tilþrif þrátt fyrir hitann og stífa dagskrá undanfarna daga. Eins og í fyrri leikjum vikunnar sáu íslenskir dómarar um dómgæsluna og stóðu sig vel sem fyrr. Að þessu sinni var það Erlendur Eiríksson sem blés í flautuna.
Leikurinn var liður í Canela-mótinu sem haldið hefur verið þar ytra í nokkur ár. Íslensk lið sem hafa verið á Canela í æfingarferðum hafa þá att kappi. Að þessu sinni eru aðeins þessi tvö lið þar við æfingar en ákveðið var að halda við þeirri hefð að keyra mótið. Upphafsmaður mótsins var Þórir heitinn Jónsson og er það nú leikið til minningar um hann.
Keflavíkurliðið kemur heim frá Spáni á morgun. Ekki á að slá slöku við síðasta daginn og er búið að setja á létta morgunæfingu þar sem menn ætla að skokka á ströndinni. Eitthvað sem menn gera venjulega ekki hér heima... Farið verður frá Canela um kl. 11:00 og hópurinn lendir svo seinnipartinn eftir góða ferð.
Þeir Þórarinn, Stefán, Hallgrímur og Issa tóku ekki þátt í leiknum vegna meiðsla en allir leikfærir leikmenn hópsins tóku annars þátt í leiknum. Byrjunarliðið var þannig skipað.
Keflavík (4-4-1-1): Magnús Þormar - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Buddy Farah, Branko Milicevic - Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Kenneth Gustafsson, Danny Severino - Magnús Þorsteinsson - Guðmundur Steinarsson.