Enn einn heimasigurinn gegn KR
Keflavíkurliðið er áfram í 2. sæti Landsbankadeildarinnar eftir góðan heimasigur gegn KR-ingum á Sparisjóðsvellinum. Leikurinn var hin ebsta skemmtun og lokatölur urðu 4-2. Guðmundur Steinars kom Keflavík yfir með marki úr víti snemma leiks og Hörður bætti öðru marki við skömmu seinna. Gestirnir jöfnuðu með tveimur mörkum frá Björgólfi Takefusa sitt hvorum megin við leikhléið. Guðmundur og Símun tryggðu sigurinn með tveimur mörkum sem hefðu hæglega getað orðið fleiri. Eftir leikinn er Keflavík í 2. sæti deildarinnar með 15 stig en KR er í 9.-10. sæti með 6 stig. Með þessum ágæta sigri varð áframhald á góðu gengi Keflavíkur gegn KR; við höfum nú unnið fjóra af síðustu fimm heimaleikjum gegn KR-ingum og töpuðum síðast fyrir Vesturbæingum á heimavelli árið 2002. Guðmundur fyrirliði heldur líka uppteknum hætti gegn KR en hann hefur nú skorað 9 mörk gegn þeim í efstu deild.
Víkurfréttir
Jónas Guðni Sævarsson var fyrirliði Keflavíkur á síðasta tímabli og lék með liðinu allan sinn feril þar til í fyrra þegar hann skipti yfir í KR. Hann sneri nú aftur á gamlar slóðir í fyrsta sinn, en bar lítið úr býtum. Hann átti sjálfur ágætan leik, og fékk góðar mótttökur úr stúkunni.
„Það var bara góð tilfinning að koma aftur,“ sagði hann í samtali við Víkurfréttir. „Áhorfendur voru frábærir enda bjóst ég ekki við öðru, en vonandi verður uppskeran betri næst. Þessi Keflavíkurgrýla sem KR hefur verið að glíma við er greinilega enn við lýði þó búið sé að bæta keflvísku blóði í liðið!“
„Við komum sterkir til leiks og sýndum betri leik en margt sem við höfum sýnt í sumar og það er stígandi í okkar leik, en maður getur ekki sagt það endalaust. Við þurfum að fara að klára leiki. Það er erfitt að gefa tvö mörk í fyrri hálfleik gegn liði eins og Keflavík, en við komum samt til baka og sýndum ákveðinn karakter í því. Þeir slógu okkur svo út af laginu með þriðja markinu og kláruðu svo leikinn þegar við vorum komnir fram til að reyna að jafna.“
fótbolti.net
Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflvíkinga, fór fyrir sínum mönnum í sigurleiknum gegn KR í dag og var að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Hann skoraði tvö mörk og hefur þar með skorað sex mörk í fyrstu sex umferðunum.
„Mark í leik, það er fínt meðaltal,“ sagði Guðmundur kampakátur í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn.
Það vakti sérstaka athygli þegar Guðmundur fagnaði fyrra marki sínu í leiknum en hann sagði einn ákveðinn aðila hafa átt það inni.
„Ég tók hérna fagn fyrir nokkrum árum og fagnaði þá í langstökksgryfjunni og Höddi Magg (íþróttafréttamaður á Stöð 2) er búinn að rukka mig um þetta fagn liggur við árlega síðan og ég gat ekki skorast undan því núna,” sagði Guðmundur sem endurtók leikinn í dag.
Guðmundur hefur svo sannarlega verið á skotskónum það sem af er móti og er sem stendur markahæsti leikmaður deildarinnar.
„Ég er heppinn að vera búinn að skora nokkur mörk en aðrir eru að skora líka. Við erum að skora mörg mörk í leikjum og markaskorunin er að dreifast vel yfir liðið.”
Guðmundur fékk smá högg á annann fótinn í leiknum og haltraði á tímabili en hann segir meiðslin vera smávægileg og hann verður tilbúinn í næsta leik sem er gegn Grindvíkingum.
„Sem betur fer er vika á milli leikja þannig að maður hefur smá tíma til að jafna sig.“
gras.is
Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflavíkur var að vonum ánægður eftir 4-2 sigur á KR í dag. Guðmundur skoraði tvö mörk og hefur hann gert sex mörk í deildinni til þessa. Hann hafði þetta að segja.
„Gríðarlega mikilvægt að fá þrjú stig á heimavelli og koma til baka frá síðasta leik. Við byrjum þennan leik á svakalegum krafti og komust í 2-0. Síðan slökkum við á undir lok fyrrihálfleiks og í byrjun þess seinni og þeir komast inn í leikinn á ný sem við hefðum alls ekki átt að láta þá gera það. Það var síðan gríðarlega sterkt að koma svo aftur inn í leikinn og setja þriðja markið og síðan það fjórða og þeir áttu aldrei séns í okkur eftir það. Það er náttúrlega frábært að spila við aðstæður eins og þessar, sól og blíða og völlurinn eins og teppi. Þetta gerist ekki betra.“
Eru línurnar að skýrast í deildinni eftir þessa umferð?
„Nei það vil ég ekki meina. Það er svo lítið búið af mótinu og það á margt eftir að breytast og ég held að það sé alls ekki hægt að segja til um það núna á þessari stundu,“ sagði Guðmundur Steinarsson í samtali við Gras.is
Morgunblaðið
Keflvíkingar eru með skemmtilegt lið, vörnin var góð og það hefur afskaplega lítinn tilgang að senda háar sendingar inn á miðju hennar þar sem Kenneth og Guðmundur Viðar ráða ríkjum. Þeir tveir voru mjög öruggir í öllum sínum aðgerðum í gær og lentu eiginlega aldrei í neinum vandræðum. Símun er gríðarlega skemmtilegur kantmaður sem KR-ingar áttu í talsverðum erfiðleikum með þó svo að báðir bakverðir liðsins hafi átt ágætan dag. Einkenni Keflvíkinga er að sækja hratt og eru þeir með tvo framherja sem ráða vel við slíkt. Bæði Guðmundur og Patrik Redo eru fljótir, duglegir og útsjónasamir.
Guðmundur Steinarsson MM, Guðjón Árni Antoníusson M, Guðmundur Mete M, Kenneth Gustafsson M, Símun Samuelsen M, Patrik Redo M
Fréttablaðið
„Við unnum þetta eins og við ætluðum að gera fyrir leikinn í byrjun og það skilar okkur í 2-0. Svo förum við að gera einhverja aðra hluti og þá fáum við á okkur mörk í lok fyrri hálfleiks og upphafi seinni hálfleiks. Við höfum ekki leyfi til að fá á okkur mörk á þessum tíma. Síðan náum við að lyfta okkur upp og skora mjög fljótlega eftir að þeir jafna og þá var þetta bara spurning um að halda stöðunum og reyna að loka leiknum með fjórða markinu og að tókst,“ sagði Kristján Guðmundsson, jálfari Keflavíkur, í leikslok um gang leiksins.
Keflavík er í öðru sæti deildarinnar og hefur skorað sókndjarfan fótbolta. Jafnan er skorað mikið í leikjum liðsins. „Við setjum það upp að skora mörk og erum með mjög marga í liðinu sem eru að skora. Ekki bara framherja heldur líka með miðjumenn sem skora mikið. Það kemur kannski niður á því að stundum erum við of fáir að verjast,“ sagði Kristján.
Ómar 6, Guðjón 7, Guðmundur Mete7, Kenneth 8, Nicolai 6, Hörður 6 (Magnús 6), Hallgrímur 6, Hans 7, Símun 7 (Brynjar -), Patrik 8, Guðmundur 8 (Þórarinn -).
Maður leiksins: Guðmundur Steinars.
Landsbankadeildin, 8. júní 2008 - Sparisjóðsvöllurinn
Keflavík 4 (Guðmundur Steinarsson 15. víti, 56., Hörður Sveinsson 22., Símun Samuelsen 86.)
KR 2 (Björgólfur Takefusa 45. víti, 48.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Árni Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustafsson, Nicolai Jörgensen - Hörður Sveinsson (Magnús Þorsteinsson 66.), Hallgrímur Jónasson, Hans Mathiesen, Símun Samuelsen (Brynjar Guðmundsson 90.) - Guðmundur Steinarsson (Þórarinn Kristjánsson 75.), Patrik Redo
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Einar Orri Einarsson, Bessi Víðisson, Högni Helgason.
Gult spjald: Hans Mathiesen (80.)
Dómari: Jóhannes Valgeirsson.
Aðstoðardómarar: Sigurður Óli Þórleifsson og Áskell Þór Gíslason.
Varadómari: Þorvaldur Árnason.
Eftirlitsmaður: Jón Sigurjónsson.
Áhorfendur: 1210.
Skotið frá Herði á leiðinni í markið og staðan orðin 2-0.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)