Enn eitt jafnteflið
Fram og Keflavík gerððu jafntefli þegar liðin mættust í 7. umferð Pepsi-deildarinnar á Laugardalnum. Þetta var þriðji deildarleikur Keflavík í röð sem lýkur með 1-1 jafntefli og í öllum þremur leikjunum hafa okkar menn skorað fyrst. Að þessu sinni var það Jóhann Birnir Guðmundsson sem kom Keflavík yfir á 10. mínútu leiksins en Ingiberg Ólafur Jónsson jafnaði undir lok fyrri hálfleiks.
Eftir leikinn er Keflavík með 12 stig stig eftir sjö leiki.
Næsti leikur er heimaleikur gegn Stjörnunni í Pepsi-deildinni en hann verður á Nettó-vellinum sunnudaginn 15. júní kl. 20:00.
Leikskýrsla á KSÍ.is
Myndir frá leiknum
-
Þetta var 91. leikur Keflavíkur og Fram í efstu deild. Keflavík hefur unnið 35 leiki og Fram 28 en þetta var 28. jafntefli liðanna. Markatalan er 136-121 fyrir Keflavík.
-
Jóhann Birnir Guðmundsson gerði annað mark sitt í sumar og 40. mark sitt í efstu deild í 152 leikjum. Þetta var fjórða mark Jóhanns gegn Fram í efstu deild.
-
Árni Freyr Ásgeirsson lék sinn fyrsta leik í sumar og fyrsta leik sinn í efstu deild síðan árið 2012.
-
Sindri Kristinn Ólafsson lék sinn fyrsta leik í efstu deild þegar hann kom inn á fyrir Árna Frey.
-
Frans Elvarsson lék sinn 50. leik fyrir Keflavík í efstu deild.
-
Eftir aðeins sjö leiki í Pepsi-deildinni hafa þrír markmenn leikið í sumar, Jonas Sandqvist, Árni Freyr Ásgeirsson og Sindri Kristinn Ólafsson. Í fyrra léku einnig þrír markmenn með Keflavík í deildinni, þeir David Preece, Bergsteinn Magnússon og Ómar Jóhannsson. Auk þeirra voru Sindri Kristinn og Aron Elís Árnason einnig í leikmannahópi í Pepsi-deildinni.
- Þetta var þriðja 1-1 jafntefli Keflavíkur í röð í deildinni. Árið 2011 gerðist það síðast að þremur leikjum í röð lauk með sömu niðurstöðu en þá tapaði Keflavík 1-2 gegn Grindavík, ÍBV og Fylki.
Myndir: Jón Örvar Arason