Fréttir

Knattspyrna | 13. júní 2006

Enn eitt tapið

Keflvíkingar töpuðu fyrir Fylki á Árbænum í gærkvöldi með tveimur mörkum gegn einu.  Þriðja tapið í röð staðreynd og staða liðsins ekki góð.  Sitja í sjöunda sætinu með sjö stig og hafa spilað einum leik fleira en flest liðin og geta hæglega dottið í fallsæti efir næstu leiki sem eru á fimmtudag.  Þriðji leikurinn í röð sem tapast með einu marki þrátt fyrir að vera síst lakari aðilinn í öllum leikjunum. E n svona er þetta sport og málið er að skora fleiri mörk en andstæðingurinn.  Það höfum við ekki gert og sitjum því þar sem við erum í deildinni. 

 

Leikurinn byrjaði vel og liðin sýndu ágætis bolta.  Mikil miðjubarátta og þar fóru þeir Jónas Guðni og Hólmar Örn fyrir okkar mönnum.  Ómar varði vel frá Sævari Þór í góðu færi á 5. mínútu og Fjölnir markvörður Fylkis varði aukaspyrnu Guðmundar Steinarssonar mjög vel undir lok hálfleiksins.


Seinni hálfleikur var ekki nema þriggja mínútna gamall þegar Fylkir fær vítaspyrnu.  Eftir skelfileg mistök komst einn Fylkismanna innfyrir vörnina en Buddy Farah braut á honum innan teigs.  Buddy rekinn í bað fyrir atvikið og Sævar Þór skoraði örugglega úr vítaspyrnunni.  Þetta var mikið áfall eftir að hafa verið síst lakari.  Seinna mark Fylkismanna kemur á 66. mínútu og aftur var Sævar á ferðinni.  En markið var greinilega rangstæða og enn og aftur þurfum við að sitja undir röngum dómum.

 

Liðið tók vel við sér eftir þetta og var mun betri aðilinn á vellinum án þess að skapa sér góð færi. En Guðmundur náði að setj´ann á 88. mínútu eftir góða fyrirgjöf.  Staðan orðin 2-1 og vonir glæddust.  Keflavík sótti látlaust næstu mínutur en náði ekki að jafna og kom Fjölnir markvörður Fylkismanna í veg fyrir það með góðum leik.  Lokaflautan gall og þriðja tapið í röð staðreynd.

 

Keflavík verður nú að fara hysja upp um sig buxurnar og athuga sinn gang.  Til þess höfum við nú nokkra daga en á laugardag er Evrópuleikur í Keflavík á sjálfan Þjóðhátíðardaginn þegar Dungannon frá Norður-Írlandi kemur í heimsókn.

 

Lið Keflavíkur: Ómar Jóhannsson, Guðjón Antoníusson, Buddy Farah (rautt spjald 48.) Baldur Sigurðsson, Branislav Milisevic, Hallgrímur Jónasson (Magnús Sverrir 55.), Hólmar Örn Rúnarsson (Einar Orri Einarsson 70.), Jónas Guðni Sævarsson, Danny Severino (Ólafur Berry 52.), Simun Samuelsson, Guðmundur Steinarsson.

 

Ónotaðir varamenn: Magnús Þormar, Þorsteinn A. Georgsson, Þórarinn Kristjánsson, Geoff Miles.

 

Dómari: Garðar Örn Hinriksson

Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Einar Sigurðsson

 

JÖA