Enn eitt tapið á heimavelli
Slakt gengi Keflavíkurliðsins á heimavelli virðist engan endi ætla að taka og eftir góðan útisigur á Stjörnunni í síðustu umferð tapaði liðið heima gegn ÍA í 15. umferð Pepsi-deildarinnar. Lokatölur urðu 3-2 í fjörugum leik én það eru einmitt sömu tölur og í fyrri leik liðanna í sumar. Dean Martin kom gestunum yfir strax í uppphafi leiksins og Einar Logi Einarsson bætti öðru marki við áður en Jóhann Birnir Guðmundsson minnkaði muninn. Jóhannes Karl Guðjónsson skoraði svo úr vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik en Jóhann Birnir minnkaði aftur muninn með marki í blálokin.
Eftir leikinn er Keflavík í 7.-8. sæti deildarinnar með 21 stig. Næsti leikur er útileikur gegn ÍBV á Hásteinsvelli mánudaginn 20. ágúst kl. 18:00.
-
Leikurinn var 87. leikur Keflavíkur og ÍA í efstu deild. ÍA hefur nú unnið 48 leiki, Keflavíkur hefur sigrað 27 sinnum og tólf sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 108-182 fyrir ÍA.
-
Eftir mörkin tvö í leiknum er Jóhann Birnir Guðmundsson kominn með sex mörk í deildinni í sumar og er markahæsti leikmaður liðsins ásamt Guðmundi Steinarssyni. Jóhann er kominn með 33 mörk fyrir Keflavík í efstu deild og er þar með orðinn sjötti markahæstu leikmaður félagsins frá upphafi.
-
Magnús Þorsteinsson er kominn með 174 leiki fyrir Keflavík í efstu deild og er orðinn sjötti leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi í efstu deild. Í 4.-5. sæti á leikjalistanum eru Óli Þór Magnússon og aðstoðarþjálfarinn Gunnar Oddsson með 177 leiki og í 3. sæti er Þorsteinn Bjarnason með 180 leiki þannig að Magnús gæti enn færst ofar á listann það sem eftir er sumars.
-
Eins og áður sagði hefur okkar liði gengið illa á heimavelli í sumar. Liðið er búið að leika átta heimaleiki og hefur unnið tvo, gert tvö jafntefli og tapað fjórum. Afraksturinn er því átta stig af 24 mögulegum. Á útivelli hefur liðið hins vegar náð í 13 stig af 21.
Fótbolti.net
,,Þetta er búið að vera mjög erfitt og mér fannst við koma mjög illa inn í leikinn. Við vorum ekki tilbúnir og þeir voru að vinna alla seinni bolta og voru mikið fljótari og refsuðu okkur fyrir okkar mistök," sagði Zoran Daníel Ljubicic þjálfari Keflavíkur eftir 2-3 tap gegn ÍA í kvöld.
,,Eftir hálftíma komumst við loksins smá í gang og skoruðum eitt mark. Í seinni hálfleik byrjuðum við ágætlega og vorum að stjórna leiknum en gerðum þvílík mistök í vörninni og eftir það var þetta mjög erfitt og bara búið. Þetta er bara sanngjarn sigur hjá þeim."
Vörn Keflavíkur hefur haldið í síðustu leikjum en var slök í kvöld.
,,Varnarleikur liðsins í dag var mjög slakur. Það er eritt að útskýra það núna, við verðum að fara yfir þetta. Þetta má ekki gerast aftur."
,,Menn vildu meira og vildu vinna með einni snertingu og skora 2-3 mörk. Mig vantar meiri þolinmæði, sérstaklega í varnarleiknum. Við vorum að opna okkur allt of mikið og vorum ekki að skila okkur fljótt til baka og þeir bara refsuðu okkur."
Fréttablaðið / Vísir
"Það var einhver doði yfir liðinu fyrsta hálftímann og þeir refsa okkur með tveimur mörkum, sem gefur þeim þægilega forystu og þeir ná að halda okkur í svona ákveðinni fjarlægð eftir það. Það fer náttúrulega gífurlega orka í það að vinna það upp og þriðja markið þeirra gerir útslagið fyrir okkur, þá er þetta orðið erfitt lítið eftir og svona, það drepur okkur," sagði Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflavíkur.
"Þetta hefur verið svolítið upp og niður hjá okkur við mætum í leik þar sem allir eru á útopnu og svo leikinn á eftir þar sem menn eru ekki alveg eins klókir að vinna saman, en við þurfum að fara að ná aðeins meiri stöðuleika til að fara að kroppa fleiri stig. Við þurfum að ná inn fleiri stigum í skítaleikjunum, við erum með þokkalega reynslu í liðinu og þurfum að reyna taka stig úr þessum leikjum og reyna að finna einhver klókindi þegar menn eru ekki alveg gíraðir inn í þetta, toppliðin eru með þetta á hreinu," sagði Guðmundur.
Ómar 6, Hilmar Geir 4 (Grétar Atli 6), Jóhann Ragnar 5, Magnús Þór 4, Haraldur 5, Denis 6, Arnór Ingvi 6 (Hörður 6), Frans 6, Magnús Sverrir 6 (Bojan Stefán 7), Jóhann Birnir 6, Guðmundur 6.
Morgunblaðið / Mbl.is
Keflvíkingar líkt og oft áður á heimavelli voru lengi í gang og gersamlega yfirspilaðir af gestum sínum fyrstu þrjátíu mínútur leiksins. Algert hugmyndaleysi og skortur á þori einkenndi leik liðsins gegn Skagamönnum sem lágu aftarlega og biðu eftir sóknaraðgerðum heimamanna. Það má kannski fara að kalla þetta einhverja heimavallagrýlu hjá Keflvíkingum því líkt og undirritaður hefur áður greint frá gengur þeim töluvert betur á útivelli en í heimahögum.
M: Frans, Magnús Sverrir, Jóhann Birnir, Guðmundur.
Víkurfréttir / VF.is
Hvað er að gerast á heimavelli?
„Ég veit það ekki, við byrjuðum ekki leikinn, vorum hreinlega ekki mættir til leiks,“ sagði Jóhann. „Síðan tókum við yfir leikinn að mér fannst þangað til þeir fengu vítið, þá vorum við að sækja og héldum boltanum vel. Þegar vítið kemur þá drepur það eiginlega leikinn fyrir okkur.“
Jóhann segir það nokkuð ljóst að það vanti stöðugleika hjá liðinu. „Þetta er ekki alltaf dans á rósum. Við erum með unga leikmenn í lykilstöðum og liðið okkar er brothætt. Það má ekki mikið út af bregða.“
Næsti leikur Keflvíkinga er gegn ÍBV sem eru á mikilli siglingu þessa dagana. „Við unnum þá hérna heima en þetta eru allt erfiðir leikir sem eru eftir. Það er allt hægt í þessu,“ sagði Jóhann að lokum.
433.is
Það var létt yfir Jóhanni þrátt fyrir tap á heimavelli enda ekki á hverjum degi sem hann skorar tvö mörk.
"Hefðiru sagt við mig fyrir leikinn að ég myndi skora tvö mörk þá hefði ég gert kröfu um sigur," sagði Jóhann brosandi.
"En þetta er svona, við eiginlega gáfum þetta frá okkur með smá mistökum í seinni hálfleik. Mér fannst við vera komnir inn í leikinn."
Ómar 6, Hilmar Geir 4 (Grétar Atli -), Jóhann Ragnar 5, Magnús Þór 6, Haraldur 6, Denis 5, Arnór Ingvi 6 (Hörður 5), Frans 6, Magnús Sverrir 7 (Bojan Stefán 5), Jóhann Birnir 7, Guðmundur 6.
Pepsi-deild karla, Nettó-völlurinn, 12. ágúst 2012
Keflavík 2 (Jóhann Birnir Guðmundsson 37., 90.)
ÍA 3 (Dean Martin 4., Einar Logi Einarsson 22., Jóhannes Karl Guðjónsson 64. víti)
Keflavík: Ómar Jóhannsson, Hilmar Geir Eiðsson (Grétar Atli Grétarsson 72.), Jóhann R. Benediktsson, Magnús Þór Magnússon, Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Bojan Stefán Ljubicic 67.), Denis Selimovic, Arnór Ingvi Traustason (Hörður Sveinsson 67.), Frans Elvarsson, Jóhann Birnir Guðmundsson, Guðmundur Steinarsson.
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Viktor Smári Hafsteinsson, Rafn Markús Vilbergsson, Einar Orri Einarsson.
Gul spjöld: Jóhann Birnir Guðmundsson (61.), Hilmar Geir Eiðsson (70.), Bojan Stefán Ljubicic (86.)
Dómari: Garðar Örn Hinriksson.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Sverrir Gunnar Pálmason.
Eftirlitsdómari: Þórður Georg Lárusson.
Áhorfendur: 1.100.
Myndir: Jón Örvar og Eygló.