Fréttir

Enn eitt tapið í Vesturbænum
Knattspyrna | 1. júní 2015

Enn eitt tapið í Vesturbænum

Enn ætla stigin að láta bíða eftir sér en Keflavík tapaði á útivelli gegn KR í 6. umferð Pepsi-deildarinnar.  Heimamenn höfðu töluverða yfirburði og unnu 4-0 sigur.  Það var Þorsteinn Már Ragnarsson sem kom KR yfir í fyrri hálfleiknum, Óskar Örn Hauksson bætti tveimur mörkum við og Skúli Jón Friðgeirsson gerði síðan fjórða markið.  Það er skemmst frá því að segja að eftir leikinn er Keflavík í 12. og neðsta sæti deildarinnar með eitt stig.

Næsti leikur er einnig gegn KR en það er heimaleikur í bikarnum miðvikudaginn 3. júní.  Næsti leikur í deildinni er heimaleikur gegn ÍBV sunnudaginn 7. júní kl. 17:00.

Leikskýrsla á KSÍ.is

Myndir frá leiknum

  • Þetta var 98. leikur Keflavíkur og KR í efstu deild en við höfum einmitt leikið oftast við KR í deildinni.  Þetta var 37. sigur KR, Keflavík hefur unnið 22 leiki en 29 hefur lokið með jafntefli.  Markatalan er orðin 128-155 fyrir KR-inga.
     
  • Fannar Orri Sævarsson og Arnór Smári Friðriksson komu báðir inn í byrjunarliðið og léku í fyrsta sinn í sumar.  Arnór Smári var að leika sinn fyrsta leik í efstu deild.
     
  • Haraldur Freyr Guðmundsson fyrirliði meiddist í upphitun og gat ekki leikið en Unnar Már Unnarsson kom inn í liðið í hans stað.  Einar Orri Einarsson tók við fyrirliðabandinu og gegndi þeirri stöðu í fyrsta sinn fyrir Keflavík í efstu deild.
     
  • Keflavík tapaði sjötta deildarleiknum í röð gegn KR og liðið hefur ekki náð að skora í þessum sex leikjum. 
     
  • Keflavík hefur ekki sigrað í síðustu sjö útileikjum gegn KR í efstu deild.  Þar áður hafði liðið hins vegar ekki tapað í sex leikjum í röð á KR-vellinum.
     
  • Keflavík hefur fengið eitt stig úr fyrstu sex leikjum sínum og þar með er þetta orðin versta byrjun liðsins í efstu deild frá upphafi.  Í ár leikur Keflavík sitt 51. tímabil í efstu deild.

Myndir: Jón Örvar Arason