Fréttir

Knattspyrna | 1. september 2009

Enn jafnt!

Keflavík byrjaði leikinn gegn Fjölni í Grafarvoginum mjög sterkt og stjórnaði leiknum af öryggi.  Færin komu jafnt og þétt strax í upphafi og fyrsta markið okkar kom strax á 20. mínútu.  Þrátt fyrir þessa sterku byrjun þá dugði hún okkur ekki til sigurs í leiknum og því sjöunda jafnteflið í 10 útileikjum staðreynd.  Batamerki sáust á sóknarleik liðsins en það virtist bitna allharkalega á varnarleiknum og þarf liðið að gera betur þar.

Keflavík:  Lasse Jörgensen, Guðjón Árni Antoníusson, Bjarni Hólm Aðalsteinsson, Haraldur Freyr Guðmundsson, Alen Sutej, Hólmar Örn Rúnarsson, Jón Gunnar Eysteinsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson (Bessi Víðisson 89.), Símun Eiler Samuelsen, Guðmundur Steinarsson (Sverrir Þór Sverrisson 89.), Haukur Ingi Guðnason (Magnús Þórir Matthíasson 89.)   
Varamenn: Ómar Jóhannsson, Magnús Þór Magnússon, Einar Orri Einarsson, Nicolai Jörgensen.

Mynd: Jón Gunnar bjargaði einu stigi með jöfnunarmarki.



Kristján þjálfari var í viðtali á fótbolti.net og birtum við það hér með leyfi:

Kristján Guðmundsson var ekki sáttur við það að ná einungis einu stigi á móti Fjölnismönnum í dag.
,,Við náttúrulega vildum vinna leikinn. Skorum þrjú mörk til þess og enn og aftur dugar það ekki á útivelli að skora nokkur mörk. Það er svekkjandi að fá á sig þessi mörk og gera svona glórulaus mistök eins voru gerð í fyrstu tveim mörkunum." sagði Kristján í samtali við Fótbolta.net eftir leikinn.

Varnavinna Keflvíkinga í dag var ekkert sérstök.
,,Njaa sko, hreyfingarnar voru allt í lagi sko en við vorum að gera alveg svakalega feila. Til dæmis bara í fyrsta markinu að vera 40 metra inni á okkar eigin vallarhelming og gefa til baka án þess að það sé nokkur pressa eða neitt. Þetta er náttúrulega glórulaust. Það eru svona hlutir sem eru að gerast og í öðru markinu að þá erum við að gefa boltann fyrir og hann fer bara beint á hausinn á þeim og þeir breika á okkur. Svo þriðja markið að þá vorum við að dekka innkast eins og kjánar og þeir renna í gegn. Þetta er einstaklingur sem er að gera mistök. Færslurnar eru nokkurnveginn réttar. Það er dýrt þegar menn eru ekki alveg með kveikt á öllu."

Þú gerðir þrefalda skiptingu á lokamínútu leiksins og freistaðir þess að sækja þrjú stig.
,,Við vorum að fara að skipta þegar við jöfnuðum 3 - 3 og þá ákváðum við að bíða aðeins með skiptinguna. En hún hefði alveg að ósekju mátt koma fyrr það skal ég alveg viðurkenna."

Gengi Keflvíkinga á útivöllum í sumar hefur ekki verið uppá það besta.
,,Við erum ekki að tapa mörgum leikjum" sagði Kristján og brosti. ,,Við erum allavegana að ná í eitt og eitt stig. Við erum ef ég man rétt búnir að gera sjö jafntefli í 10 leikjum. Það væri allt í lagi ef það fylgdi stöku sigur með, en okkur langaði nú að vinna í kvöld til þess að hreinsa þetta út og áður en við förum í síðustu leikina, en það tókst ekki í kvöld."