Fréttir

Knattspyrna | 22. ágúst 2005

Enn slakt heima og ÍA tók 3. sætið

Keflavík bætti ekki í fátæklegt safn stiga sem hafa unnist á heimvelli í sumar þegar Skagamenn komu í heimsókn í gærkvöldi.  Okkar menn virkuðu þungir og stemmningslausir meðan Skagamenn börðust og voru á undan í flesta bolta.  Niðurstaðan varð 1-0 sigur gestanna sem eru þar með komnir í 3. sæti Landsbankadeildarinnar en Keflavík situr eftir í 4. sæti.

Það skiptust bókstaflega á skin og skúrir á Keflavíkurvelli í gær því um leið og flautað var til leiksloka skall á feiknamikill skúr sem rennbleytti völlinn og leikmenn sem virkuðu enda heldur þungir á upphafi leiks.  Skagamenn voru ákveðnari í leiknum, börðust vel og beittu hröðum sóknum.  Okkar mönnum voru mislagðar fætur, náðu sjaldan upp spili og það er óhætt að segja að neistann hafi vantað í leik liðsins.  Vörnin stóð sig reyndar vel og gaf fá færi á sér en mönnum gekk illa að spila boltanum frá sér.  Þó fengum við nokkur þokkaleg færi en Keflvíkingurinn í marka gestanna sá við þeim öllum.  Sigurmark Skagamanna kom síðan stundarfjórðungi fyrir leikslok eftir skyndisókn.  Dean Martin gaf góða sendingu fyrir markið þar sem Sigurður Ragnar Eyjólfsson skallaði boltann fallega í netið án þess að Ómar ætti möguleika á að verja.

Með sigrinum í gær tóku Skagamenn 3. sætið í deildinni og eru nú með 23 stig en Keflavík er með 21 stig í 4. sæti.  Það er því enn barátta framundan um þetta eftirsótta 3. sæti.  Tapið er ekki gott veganesti fyrir Evrópuleikinn gegn Mainz á fimmtudaginn en það er nokkuð ljóst að menn munu þjappa sér saman og mæta grimmir til leiks á Laugardalsvellinum.

Keflavíkurvöllur, 21. ágúst 2005
Keflavík 0
ÍA 1 (Sigurður Ragnar Eyjólfsson 73.)

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete, Baldur Sigurðsson, Issa Abdulkadir - Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Kenneth Gustavsson, Branko Milicevic (Símun Samuelsen 45.) - Hörður Sveinsson (Stefán Örn Arnarsson 77.), Guðmundur Steinarsson
Varamenn: Magnús Þormar, Michael Johansson, Gestur Gylfason
Gul spjöld: Jónas Guðni Sævarsson (35.), Issa Abdulkadir (85.), Stefán Örn Arnarsson (86.)

Dómari: Kristinn Jakobsson
Aðstoðardómarar: Eyjólfur Ágúst Finnsson og Ólafur Ingvar Guðfinnsson
Eftirlitsdómari: Gunnar Randver Ingvarsson
Áhorfendur: 782


Branko og Herði varð lítið ágengt í gærkvöldi frekar en félögum þeirra.
(Mynd.
Jón Örvar Arason)