Evrópuævintýrið búið með baráttujafntefli
Þátttöku Keflavíkur í InterToto-keppninni er lokið þetta árið eftir 2-2 jafntefli gegn Lilleström á Keflavíkurvelli. Gestirnir skoruðu tvisvar snemma leiks en með mikilli baráttu tókst okkar mönnum að jafna í síðari hálfleik og geta verið sáttir við sína frammistöðu. Lið Lilleström heldur áfram í 3. umferð keppninnar og mætir þar enska liðinu Newcastle.
Lilleström-menn hófu leikinn með sterkan vind í bakið og sóttu af krafti. Þeir náðu forystunni strax í 10. mínútu og átti vindurinn sinn þátt í markinu. Eftir baráttu fyrir utan teiginn skrúfaðist boltinn inn fyrir vörnina þar sem Magnus Myklebust slapp einn í gegn og skoraði af öryggi. Gestirnir léku vel og létu boltann ganga hratt milli manna. Keflvíkingum gekk illa að sækja gegn vindinum en reyndu að halda boltanum niðri. Á 19. mínútu koma annað markið eftir snarpa sókn gestanna. Eftir fyrirgjöf frá vinstri fékk Robert Koren boltann í teignum og skoraði með föstu skoti efst í markhornið. Glæsilegt skot og lagleg sókn. Skömmu síðar munaði svo litlu að Kári yrði okkur enn að falli. Eftir baráttu í teignum hrökk boltinn af leikmanni og sveif yfir Ómar sem náði á síðustu stundu að blaka boltanum í slána. Skömmu fyrir hálfleik kom hættulegasta sókn Keflavíkur í fyrri hálfleik sem lauk með því að Hólmar Örn skaut rétt framhjá. Í kjölfarið sóttu okkar menn af krafti og voru óheppnir að ná ekki að skapa sér hættuleg færi. Það gekk ekki og staðan 0-2 í hálfleik.
Strax í upphafi seinni hálfleiks sóttu okkar menn fram með vindinn í bakið. Þeir léku ágætlega og áttu hættulegar sóknir. Á 58. mínútu náðu þeir svo að minnka muninn og var einstaklega vel að markinu staðið. Hallgrímur sendi langa sendingu frá vinstri og upp hægri kantinn. Þar tók Stefán við og sendi viðstöðulaust inn í teig þar sem Þórarinn skoraði með föstu skoti. Glæsilega gert. Sóknin hélt áfram og nokkrum mínútum síðar var staðan orðin jöfn. Eftir snarpa sókn lagði Jónas boltann fyrir Hólmar rétt utan teigs og hann skoraði með föstu skoti sem hafði viðkomu í varnarmanni. Eftir þetta sóttu okkar menn mun meira og sköpuðu oft ágætis færi. Guðmundur hefði vel getað fengið víti þegar honum var haldið inn í teig en í eitt af örfáum skiptum sá slakur dómari leiksins ekki ástæðu til að flauta. Skömmu síðar skaut Magnús rétt yfir úr góðu færi. Lilleström skapaði helst hættu úr föstum leikatriðum en tókst ekki að skora þrátt fyrir nokkur ágæt færi. Á síðustu mínútum fengum við tvö góð færi; fyrst skaut Baldur rétt framhjá og síðan varði markvörðurinn hörkuskot frá Guðmundi. En ekki gekk að koma inn sigurmarkinu þó það hefði verið fullkomlega sanngjarnt. Okkar strákar geta vel við unað að gera jafntefli við þetta sterka norska lið og hefðu með smáheppni getað tryggt sér sigurinn undir lokin.
Keflavíkurvöllur 9. júlí
Keflavík 2 (Þórarinn Kristjánsson 68., Hólmar Örn Rúnarsson 66.)
Lilleström 2 (Magnus Myklebust 10., Robert Koren 19.)
Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Antoníusson, Guðmundur Mete (Þórarinn Kristjánsson 46.), Kenneth Gustavsson, Hallgrímur Jónasson - Baldur Sigurðsson, Hólmar Örn Rúnarsson, Jónas Guðni Sævarsson, Símun Samuelsen (Magnús Þorsteinsson 67.) - Stefán Örn Arnarson (Einar Orri Einarsson 75.), Guðmundur
Varamenn: Magnús Þormar, Branko Milicevic, Viktor Guðnason, Garðar Eðvaldsson
Dómari: Andrejs Sipailo
Aðstoðardómarar: Sergejs Braga og Arnis Lemkins
Fjórði dómari: Pjetur Sigurðsson
Eftirlitsmaður UEFA: Kenneth Ridden
Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir
Þórarinn lætur vaða...
...og þessi steinliggur.
Hólmar fagnar markaskoraranum.
Markmaðurinn varnarlaus eftir skot frá Hólmari.
Sem fagnar hressilega.