Fréttir

Knattspyrna | 16. maí 2008

Færri mörk en annar sigur í höfn

Eftir mikla markaveislu í 1. umferð Landsbankadeildarinnar slökuðu leikmenn aðeins á þegar Fylkismenn komu í heimsókn á Sparisjóðsvöllinn í gærkvöldi.  Niðurstaðan var hins vegar sú sama, góður Keflavíkursigur.  Að þessu sinni vou lokatölurnar 2-1 og aftur minnkuðu gestirnir muninn undir lokin.  Úrslitin gefa varla rétta mynd af gangi leiksins; okkar menn voru mun sterkari og hefðu á góðum degi getað endurtekið markasúpuna frá síðasta leik.  Fyrra markið kom um miðjan fyrri hálfleik þegar Hólmar Örn skoraði beint úr hornspyrnu.  Í upphafi seinni hálfleiks bætti Guðmundur Steinars svo öðru marki við með glæsilegu skoti.  Okkar menn gáfu eftir undir lokin og Andrés Már Jóhannesson minnkaði muninn með hörkuskoti úr teignum eftir harða sókn gestanna.  Fylkismenn voru svo nálægt því að jafna á lokamínútunum en við sluppum með skrekkinn.  Keflavík er því með 6 stig eftir tvo leiki eins og FH, Fjölnir og Fram en Fylkismenn eru án stiga í deildinni.  Næsti leikur Keflavíkur er útileikur gegn HK mánudaginn 19. maí.


Víkurfréttir
Keflvíkingar hafa fullt hús stiga í Landsbankadeild karla í knattspyrnu eftir öruggan 2-1 sigur á Fylki í annarri umferð deildarinnar.  Það voru þeir Guðmundur Steinarsson og Hólmar Örn Rúnarsson sem gerðu mörk Keflavíkur í kvöld en tveimur mínútum fyrir leikslok náðu gestirnir úr Árbænum að klóra í bakkann með fínu marki frá Andrési Jóhannessyni.  Keflvíkingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum en fóru ansi oft illa að ráði sínu við Fylkismarkið og hefðu hæglega getað gert nokkur mörk til viðbótar en tvö urðu þau sem skiluðu þremur stigum í hús.

Sportmenn, stuðningsmannaklúbbur Keflavíkur, völdu Hólmar Örn Rúnarsson besta mann leiksins en mikil vinnsla var á Hólmari í kvöld sem og öllu Keflavíkurliðinu sem sóttu án afláts og máttu Fylkismenn þakka fyrir að sleppa með 2-1 ósigur af Sparisjóðsvellinum.  Ekki amalegur sigur fyrir Keflvíkinga sem máttu þola 4-0 tap í Árbænum þegar liðin mættust síðast og var kvittað að fullu fyrir þann tapleik í kvöld.


fótbolti.net
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga var að vonum himinlifandi eftir góðan sigur sinna manna gegn Fylki í kvöld.

„Það er alltaf gaman að vinna fótboltaleiki og erum hæst ánægðir með byrjunina í sumar, framan af spiluðum við glimrandi bolta og gera réttu hlutina, það riðlaðist aðeins undir lokin og það er helst eitthvað sem við þurfum að horfa á,“ sagði Kristján við Fótbolta.net í kvöld.

„Við vissum lítið um hvernig Fylkisliðið kæmi til leiks eftir slæma byrjun í 1.umferð og vissum svo sem ekkert hvað við vorum að fara út í en ég sagði bara við strákana að spila okkar leik og ekki hafa áhyggjur af andstæðingunum.“

„Við hleyptum þeim að óþörfu inn í lokin og ég er ekki alveg klár hversu opin færi þeir fengu þarna í lokin en það var algjör óþarfi að hleypa þeim í leikinn enda áttum við að vera búnir að klára leikinn.“

Aðspurður um nýju leikmennina þá Hörð Sveinsson, Hólmar Örn og Hans Mathiesen sagði Kristján: „Þeir eru að koma vel inn en við þurfum bara meiri tíma til að keyra þá inn í þetta og koma okkur betur inní okkar leikskipulag.“


gras.is
Leifur Sigfinnur Garðarsson, þjálfari Fylkis sagði eftir 2-1 tap gegn Keflavík í kvöld að honum fannst sitt lið hafa átt að fá meira út úr þessum leik. Honum fannst sum atriði í leiknum ekki falla hans megin en var stoltur af sínu liði og þeirri baráttu sem það sýndi í þessum leik. „Ég er mjög svekktur vegna þess að við börðumst vel og unnum ákveðna skipulags vinnu í fyrrihálfleik og gátum notað spilakaflana betur og vorum að vinna okkur betur inn í þetta í seinnihálfleik og náum að minnka muninn í 2-1 og áttum að fá einhverja augljóslegustu vítaspyrnu sem um getur þegar markvörður þeirra brýtur af okkar manni inn í teig þeirra og gengur frá mínum manni undir lokin á leiknum.  En þetta féll ekki með okkur í þessum leik þ.e.a.s þau atriði sem hefðu getað breytt úrslitum þessa leiks.  Mér fannst bara sum atriði ekki falla með okkur og það er eitt að aðstoðardómarinn sem var varamannaskýlismegin fer gjörsamlega á taugum þegar ég spyr hvort einn dómur sé Jóke og maður fær gult spjald fyrir en samt horfir maður á aðra þjálfara í deildinni hoppa og skoppa og virðingin á að vera gagnvart dómurunum en hún virkar greinilega ekki í hina áttina.  Mér fannst eins það var brotið á Fjalari í fyrra markinu þeirra en kannski gilda ekki sömu reglur fyrir hann eins og aðra markmenn í deildinni ég veit það ekki. Við áttum að fá meira úr þessum leik miða við það sem við lögðum hann,“ sagði Leifur Sigfinnur Garðarsson í samtali við Gras.is.  


Morgunblaðið
Þrátt fyrir algera yfirburði fram eftir leik má segja að Keflvíkingar hafi sloppið fyrir horn er Fylkir sótti þá heim suður með sjó í gærkvöldi því heimamenn lögðu undir lokin algera áherslu á að halda fengnum hlut.  Fylkismenn uppskáru fyrir að nýta sér það til fullnustu en það dugði samt ekki til að ná í stig því Keflavík vann 2:1.  Eftir tvo fyrstu leikina unna er Keflavík aðeins í 4. sæti deildarinnar vegna lakara markahlutfalls en Fylkir er sem fyrr án stiga. 

Kefvíkingar voru mun grimmari fram eftir leik, stukku á eftir hverjum bolta og eltu menn uppi.  Vörnin með Guðmund Viðar Mete sterkan hleypti sóknarmönnum Fylkis ekki langt. Þeir réðu líka miðjunni lengst af og með því að sækja hratt með mörgum mönnum tókst þeim að halda vörn Fylkis rækilega við efnið. Fylkismenn eru varkárir og áttu litla möguleika á að komast inn í leikinn þrátt fyrir ágæta spretti Hauks Inga Guðnasonar og Allan Dyring en þeim tókst ekkert að vinna úr því sem þeir fengu. Hinsvegar verður að hrósa Fylki fyrir að ganga strax á lagið þegar Keflvíkingar gáfu eftir.

Guðjón Árni Antoníusson M, Guðmundur Mete M, Hólmar Örn Rúnarsson M, Hans Mathiesen M, Símun Samuelsen M, Guðmundur Steinarsson M


Fréttablaðið
„Við látum verkin á vellinum tala,“ sagði Guðmundur fyrirliði Steinarsson eftir leik en fáir bjuggust við miklu af Keflvíkingum í sumar. Koma Hólmars og Harðar Sveinssonar hefur virkað vel en sá fyrrnefndi var besti maður vallarins í gær.  „Það var frábært að fá tvo uppalda Keflvíkinga til baka en fyrir vorum við með stóran og sterkan hóp,“ sagði Guðmundur, sem sagðist ekki hafa verið stressaður undir lokin en hafði vonast til að halda hreinu. „Það er eitthvað sem við þurfum að laga.“

Sigur Keflvíkinga var verðskuldaður. Þeir voru mun grimmari og svo virðist sem sjálfstraust skorti í Árbænum.  „Sigurinn var fyllilega verðskuldaður, ég fer ekkert ofan af því. Markið var nánast eina skotið þeirra á markið á meðan við áttum hátt í tuttugu og við hefðum átt að skora þrjú eða fjögur mörk,“ sagði Guðmundur.

Ómar 6, Guðjón 8, Guðmundur Mete 7, Kenneth 7, Nicolai 6, Hólmar Örn 8, Hallgrímur 7, Hans 6 (Hörður -), Símun 6, Patrik 6 (Þórarinn 6), Guðmundur 8 (Magnús -).
Maður leiksins: Hólmar Örn.


Landsbankadeildin, 15. maí 2008 - Sparisjóðsvöllurinn
Keflavík 2 (Hólmar Örn Rúnarsson 20., Guðmundur Steinarsson 48.)
Fylkir 1 (Andrés Már Jóhannesson 88.)

Keflavík (4-4-2): Ómar Jóhannsson - Guðjón Árni Antoníusson, Guðmundur Mete, Kenneth Gustafsson, Nicolai Jörgensen - Hólmar Örn Rúnarsson,  Hallgrímur Jónasson, Hans Mathiesen (Hörður Sveinsson 72.), Símun Samuelsen - Guðmundur Steinarsson (Magnús Þorsteinsson 81.), Patrik Redo (Þórarinn Kristjánsson 62.)
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson, Brynjar Guðmundsson, Einar Orri Einarsson, Jón Gunnar Eysteinsson.
Gult spjald: Guðjón Árni Antoníusson (87.)

Dómari: Garðar Örn Hinriksson.
Aðstoðardómarar: Einar Sigurðsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson.
Eftirlitsmaður: Jón Sigurjónsson. 
Áhorfendur: 948.


Hasar í teignum og hornið frá Hólmari endar í markinu.
(Mynd: Eygló Eyjólfsdóttir)