Faxaflóamót stúlknaflokka
Á laugardag léku 4. og 3. flokkar kvenna í Faxaflóamótinu; 4. flokkur lék gegn ÍBV í Reykjaneshöllinni en 3. flokkur skellti sér á Akranes. 4. flokkur lék svo aftur á sunnudeginum gegn Aftureldingu.
Í 4. flokki var leikið í A- og B-liðum eins og ávallt þegar leikið er í 7 manna bolta. Hjá A-liðum var leikurinn skemmtilegur á að horfa og bæði lið að sýna góðan leik. Leikurinn endaði 2-2 og skoraði Fanney Kristinsdóttir bæði mörkin, það fyrra beint úr aukaspyrnu og annað með frábærum skalla eftir hornspyrnu Sigurbjargar Auðunsdóttur.
B-liðið sá aldrei til sólar gegn mjög sterku og skemmtilegu liði ÍBV. Það skal þó tekið fram að okkur vantaði sterkar stelpur í liðið. Lokatölur 0-7.
4. flokkur kvenna:
A-lið, Keflavík - ÍBV: 2-2 (Fanney Kristinsdóttir 2)
B-lið, Keflavík - ÍBV: 0-7
Daginn eftir leikina gegn ÍBV léku stelpurnar gegn Aftureldingu í Reykjaneshöllinni og voru leikirnir spilaðir á sama tíma. Það tók stelpurnar í A-liðinu smátíma að átta sig að um leik var að ræða en ekki æfingu, þær lentu fljótt undir 0-1. Við þetta vöknuðu þær og fóru að hysja upp um sig brækurnar og leiddu í hálfleik 3-2. Í seinni hálfleik sýndu þær virkilega hvað í þeim býr, voru að berjast og spila sem lið og höfðu algjöra yfirburði. Þegar þær ná sér á þetta plan eru þær erfiðar við að eiga. B-liðið byrjaði sinn leik nokkuð vel og leiddi í hálfleik 2-0 með mörkum frá Eyrúnu Magnúsdóttur og Ísabellu Eyþórsdóttur. Í seinni hálfleik var eins og þær héldu að þetta væri bara nóg og slökuðu of mikið á, það kostaði það að við fengum á okkur þrjú mjög svo ódýr mörk og töpuðum leiknum.
4. flokkur kvenna:
A-lið, Keflavík - Afturelding: 6-3 (Freyja Marteinsdóttir 3, Fanney Kristinsdóttir, Sigurbjörg Auðunsdóttir, Ólína Ýr Björnsdóttir)
Mark Ólínu var sérlega skemmtilegt, hún tók skot vel inn á sínum vallarhelmingi af 20-30 metra færi og knötturinn söng í netinu. Ekki er á neina hallað í þessu liði en gaman var að sjá til Freyju og Fanneyjar í þessum leik en þær eru að stíga upp úr erfiðum meiðslum, þó sérstaklega Freyja sem er búin að vera lengi frá.
B-lið, Keflavík - Afturelding: 2-3 (Eyrún Ósk Magnúsdóttir, Ísabella Eyþórsdóttir)
3. flokkur skellti sér á Akranes, bæði lið þurftu á sigri að halda í þessum leik til að tryggja sér sæti í úrslitaleik. Leikið var á malarvelli þeirra heimamanna sem er í einu orði sagt lélegur, völlurinn var svo þurr að þegar stelpurnar voru að reyna að fóta sig var eins og að þær væru á skautasvelli. Ekki ætla ég nú samt að skella tapinu alfarið á völlinn, þetta var bara ekki okkar dagur og stelpurnar ekki að gera það sem lagt var upp með. Samt hafði ég það á tilfinninguni alveg frá upphafi leiks og kom æ meira í ljós er leið á leikinn að við áttum aldrei að vinna þennan leik. Bæði mörk heimamanna voru ólögleg. Í fyrra markinu datt Skagaleikmaður um boltann sem hoppaði og skoppaði í þessari möl fyrir utan okkar teig. Dæmd var aukaspyrna sem var glæsilega tekin og boltanum smellt í skeytin. Seinna markið var þannig að varnarmaður okkar tók boltann á lærið, þá birtist Skagastúlka með sólann á undan sér og tók boltann (eins gott, annars hefði farið illa), komst í gegn og eftirleikurinn auðveldur. Faxaflóamótið er búið hjá 3. flokki að sinni og nú tekur Íslandsmótið við. Fyrsti leikurinn hjá þeim verður 29. maí þegar Stjarnan kemur í heimsókn og verður þá vonandi leikið á grasi.
Elís Kristjánsson, þjálfari