Fréttir

Knattspyrna | 21. október 2004

Faxaflóamótið byrjað hjá 3. flokki

Faxaflóamót 3. flokks fór af stað s.l. laugardag þegar Keflvíkingar léku gegn FH-ingum á gervigrasvellinum í Kaplakrika.  Mikill fjöldi pilta æfir í 3. flokki í ár og teflir Keflavík því fram A- og B-liði, en slíkt hefur ekki gerst í þessum flokki í manna minnum!

Um var að ræða mikla markaleiki í Hafnarfirði.  A-liðið sigraði mjög sannfærandi 3-6 og voru piltarnir að spila stórvel á köflum en þó enginn betur en Einar Orri Einarsson.  Einar gerði 3 síðustu mörk Keflvíkinga í leiknum og komu þau öll á stuttum kafla í síðari hálfleik.  Aðrir á markalistanum voru Stefán Lynn með mark af 45 metra færi, Natan Freyr Guðmundsson og Helgi Eggertsson.

Það gekk ekki eins vel hjá B-liðinu.  Eftir 10 sekúndur leik höfðu FH-ingar gert fyrsta mark leiksins.  Eftir 1 mínútu og 10 sekúndur var staðan orðin 2-0!!  En þá kom besti kafli Keflavíkur í leiknum, eftir 10 mínútna leik höfðu þeir jafnað leikinn með mörkum frá Ingimari Rafni Ómarssyni og Ómari Hjaltasyni.  Eftir það sáu Suðurnesjapiltar aldrei til sólar og þegar yfir lauk höfðu FH-ingar gert 13 mörk!  Ómar náði þó að setja eitt mark til viðbótar rétt fyrir leikslok.  Það er piltunum þó einhver huggun að í liði FH voru nokkrir gríðarlega sterkir A-liðs leikmenn og fór þar fremstur í flokki Hákon nokkur Hallfreðsson (bróðir Emils).

Næsti leikur 3. flokks er gegn HK sunnudaginn 31. október.