Fréttir

Knattspyrna | 18. júlí 2007

FC Midtjylland fra Danmark

Mótherjar okkar í Evrópukeppni félagsliða, FC Midtjylland, var stofnað árið 1999.  Þá sameinuðust erkifjendurnir Herning Fremad og Ikast FS og markmiðið var að stofna félag sem yrði í fremstu röð í danskri knattspyrnu.  Það tókst því liðið vann sig upp í efstu deild á sínu fyrsta leiktímabili og hefur síðan verið í toppbaráttunni þar.  Í vor endaði liðið síðan í 2. sæti í úrvalsdeildinni sem er besti árangur í sögu þess.  Félagið lék fyrst í Evrópukeppni tímabilið 2001-2002 og hefur m.a. leikið þar gegn Sporting Lissabon, Anderlecht og CSKA Moskva.  Gælunafn liðsins er Úlfarnir og lukkudýrið er úlfurinn Lupus en það er reyndar latneska heitið á úlfum.

Tveir af leikmönnum Keflavíkur hafa leikið fyrir danska liðið.  Guðmundur Mete var þar í láni í stuttan tíma árið 2001 og náði að leika einn leik fyrir félagið.  Nicolai Jörgensen var hins vegar leikmaður FC Midtjylland frá 2001-2006 og lék 85 leiki.  Þekktasti leikmaðurinn sem leikið hefur fyrir FC Midtjylland er líklega Mohamad Zidan frá Egyptalandi sem þykir um þessar mundir einn athyglisverðasti leikmaðurinn í þýsku Bundesligunni.  Hann lék með danska liðinu 2003-2004 en fór þaðan til Werder Bremen.  Zidan var síðan lánaður til 1FSV Mainz, fyrrum mótherja okkar í Evrópu.  Hann kom þaðan aftur til Bremen en var seldur til Mainz í janúar á þessu ári fyrir metfé.  Zidan er nú kominn til Hamburger SV og leikur með þeim í vetur.

Stuðningsmenn þeirra dönsku eru kallaðir Svörtu úlfarnir eða Black Wolves en þeir vilja endilega nota enskuna.  Klúbburinn er mjög öflugur og heldur úti margs konar starfsemi, m.a. sérstaka deild fyrir börn yngri en 13 ára en þar eru um 4000 meðlimir.

FC Midtjylland kemur frá Herning sem er á miðju Jótlandi eins og nafn félagsins gefur til kynna.  Íbúar bæjarins eru um 45.000 en í sveitarfélaginu Herning búa alls rúmlega 80.000 manns.  Þekktasti sonur bæjarins er hjólreiðakappinn Bjarne Riis sem vann Tour De France keppnina árið 1996 og var um árabil einn þekktasti hjólreiðamaður heims.  Fyrr á þessu ári viðurkenndi hann hins vegar að hafa notað lyf sér til aðstoðar og nú vilja íbúar Herning og aðrir íbúar Danmerkur sem minnst af honum vita.

Heimavöllur FC Midtjylland heitir SAS Arena og var vígður árið 2004.  Leikvangurinn er hinn glæsilegasti og tekur um 12.000 áhorfendur.  Leikvangurinn er í eigu Messecenter Herning og er hluti af sýningar- og ráðstefnusvæði fyrirtækisins sem er það stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum.  Íslendingar ættu að kannast við sig þar því þar fara reglulega fram keppnir fyrir íslenska hesta og árleg mjólkurafurðasýning þar sem skyrið og íslenskir ostar hafa fengið margvíslegar viðurkenningar.  Á svæðinu eru haldnar fjölmargar stórar vörusýningar sem eru í dag ein helsta atvinnugrein Herning auk rokktónleika og annarra uppákoma en Bob Dylan og Genesis hafa haldið tónleika þar á þessu ári.