Fréttir

Knattspyrna | 8. desember 2005

Ferðasaga og myndir frá Liverpoolferð 4. flokks

Nú nálgast jólin og þá er rétti tíminn til að birta myndir og segja ferðasögu 4. flokks kvenna sem fór á Liverpool-Knowsley mótið í sumar.  Hér kemur svo ferðasagan og myndasyrpa frá ferðinni.


Ferðasaga 4. flokks kvenna til Liverpool

Það var spenntur og glaður hópur 20 stúlkna sem safnaðist saman við Leifsstöð snemma að morgni mánudags þann 25. júlí 2005 þar sem ferðinni var heitið til mekka knattspyrnunnar Liverpool að taka þátt í alþjóðlegu knattspyrnumóti.  Að baki var mikil vinna við fjáraflanir bæði hjá stelpunum og einnig foreldrum en framundan ævintýraferð sem var þess virði að vinna fyrir.
 
Með stúlkunum í för voru þrír fararstjórar þau: Jóhanna M. Einarsdóttir (Hanna), Berglind Karlsdóttir (Linda) og Björn Kristinsson (Bjössi) ásamt þjálfara liðsins Elis Kristjánssyni (Ella).

Flogið var með Flugleiðum til London þar sem rúta beið og keyrði til Liverpool.  Þrjú önnur íslensk lið tóku þátt í þessu móti:  Fylkir, Fram og KA en Keflavík var eina stúlknaliðið sem kom frá Íslandi.  Í rútunni til Liverpool ferðuðumst við með KA strákum sem höfðu keyrt frá Akureyri nóttina áður til Keflavíkur og voru orðnir ansi þreyttir.  Rútuferðin tók 5 klukkutíma og voru allir fegnir þegar komið var á áfangastað kl. 18:00

Gist var í heimavist við Carnatic Halls í Liverpool.  Það kom fljótlega í ljós að okkar lið var annað af tveim stúlknaliðum á staðnum, hitt liðið var frá Kína en alls voru um 300 keppendur sem gistu við heimavistina og eins og vera ber urðu stelpurnar feikivinsælar á svæðinu.  Allir strákarnir vildu kynnast stelpu frá Íslandi, fararstjórunum til skelfingar.

Á meðan stelpurnar komu sér fyrir fóru Elli og Bjössi á Anfield þar var fundað með fulltrúum liðanna og leikreglur útskýrðar.


Keflavíkurliðið með fánann sinn.

Þriðjudagur 26. júlí
Þriðjudagurinn rann upp, fyrsti keppnisdagur.  Jú, þetta var nú keppnisferð.  Við vorum með tvö lið; eitt 11 manna og eitt 7 manna lið.  7 manna liðið keppti við Kimmel Bay frá Wales og skildu liðin jöfn 0-0 þar sem markvörður okkar Ísabella varði vítaspyrnu.  11 manna liðið keppti við Tranmere Ladies og vannst leikurinn með 3 mörkum gegn 2 í hörkuleik

Allir voru ánægðir með fína byrjun sem vonandi lofaði góðu með framhaldið.  Á þriðjudagskvöldið var svo setning mótsins í Ráðhúsi Liverpool, setningin var nú í lengra lagi og var komið langt fram á kvöld þegar henni var lokið.

Miðvikudagur 27. júlí
Á miðvikudeginum var leikið aftur.  7 manna liðið keppti við Moesley Hill og vann með 2-0 og var Ingunn Hauksdóttir valinn maður leiksins.  11 manna liðið keppti við Brazil Girls og vann stórsigur með 6-0.  Sigurbjörg Auðunsdóttir var valinn maður leiksins.  Eftir leiki miðvikudagsins var það ljóst að þeir leikir sem leiknir væru á fimmtudeginum yrðu mjög mikilvægir fyrir bæði lið um úrslitasæti í riðlum. 

Á miðvikudagskvöldið var farið til Preston að sjá knattspyrnuleik - hvað annað.  Við sáum Preston vs. Wigan.  Á þeim tíma vissi enginn að Wigan kæmi til með að verða spútniklið ensku úrvalsdeildarinnar á þeirri leiktíð sem var framundan.


Keflavíkurstúlkur brosa til aðdáenda sinna.

Fimmtudagur 28. júlí
Fimmtudagurinn rann upp með rigningu.  Fararstjórar og Elli voru búnir að skipuleggja daginn þar sem mikið yrði að gera, tveir mikilvægir leikir og skoðunarferð á Anfield.  Hópnum var skipt upp þar sem 7 manna liðið átti ekki að keppa fyrr en seinnipartinn.  Hanna og Bjössi fóru með 7 manna liðið á Anfield í skoðunarferð á meðan Elli og Linda fóru með 11 manna liðið á mótsvæðið.  Síðan var planið þannig að Hanna og Bjössi myndu stjórna 7 manna liðinu á meðan Elli og Linda færu á Anfield með 11 manna liðið í sína skoðunarferð.  Ekki byrjaði nú skoðunarferðin vel hjá 7 manna liðinu, við deildum rútu með liði frá Frakklandi og Kína.  Þegar rútan var um það bil hálfnuð á Anfield stoppaði fararstjóri Kínverjanna rútuna þar sem hann uppgötvaði að þau væru á rangri leið, já þá voru Kínverjarnir að fara keppa… Þannig að við urðum að bíða eftir annarri rútu sem kom og sótti Kínverjana.  Jæja, að því loknu var farið á Anfield, völlurinn skoðaður hátt og lágt og að sjálfsögðu verslað.

Þegar 7 manna liðið kom á mótsvæðið var 11 manna liðið byrjað að spila á móti Paris Girls í hellirigningu, (fyrir leikinn var það ljóst að liðin voru jöfn að stigum og markatölu þannig að um hreinan úrslitaleik var að ræða í riðlinum, ef leikurinn endaði með jafntefli þá þyrfti vítaspyrnukeppni).  Keflavík lenti undir í leiknum og var 2-0 undir í hálfleik.  Stelpurnar okkar komu mjög ákveðnar og grimmar til leiks í seinni hálfleik og náðu fljótlega að skora og laga stöðuna í 2-1.  Við markið jókst sjálfstraustið hjá okkar stelpum og þær sóttu af krafti, í einni sókninni komst Íris ein í gegn um vörn Paris Girls og var komin í ákjósanlegt færi þegar markvörður Paris Girls tæklar hana hræðilega, hreinlega straujaði hana niður.  Íris lá óvíg eftir en markvörðurinn var rekinn út af með rautt spjald.  Fararstjórar og þjálfari slepptu sér á hliðarlínunni við tæklinguna enda var hún ein sú ljótasta.  Bjössi fór með Írisi í sjúkratjaldið, þar hittu þau fyrir Framara sem hafði einnig verið tæklaður illa.  Á meðan hélt leikurinn áfram.  Keflavík náði að komast yfir í leiknum 3-2 þegar Paris Girls fengu gefins vítaspyrnu þegar 2 mínútur voru eftir.  Þær jöfnuðu 3-3 og allt stefndi í vítaspyrnukeppni.  Eftir jöfnunarmark Paris Girls tókum við miðju og Guðrún Olsen gerði sér lítið fyrir og þrumaði á markið þar sem markvörður Paris Girls missti boltann í gegn um klofið á sér.  Húrra, sigur staðreynd!  Sigurbjörg Auðunsdóttir var valinn maður leiksins öðru sinni í mótinu.

Aftur í sjúkratjaldið... Þar lá Íris sárkvalin.  Læknirinn í tjaldinu ákvað að senda Írisi á sjúkrahús í myndatöku og var það mikið áfall fyrir hana vegna þess að þá missti hún af skoðunarferðinni á Anfield en hún hafði hlakkað mikið til þess að fara þangað.  Íris og Bjössi fóru á sjúkrahúsið.  Þar með var hópurinn orðinn þrískiptur, þ.e. Elli, Linda og 11 manna liðið fóru á Anfield en Hanna varð eftir og stjórnaði 7 manna liðinu.  Það er skemmst frá því að segja að 7 manna liðið datt úr keppninni þennan dag, þær spiluðu við Everton og töpuðu 6-0 en líklega hefur það sem á undan var gengið slegið þær út af laginu.

Á sjúkrahúsinu hittum við aftur Framarann en hann var einnig sendur í myndatöku og þarna lágu þau á sjúkrabekk og biðu eftir þjónustu.  Í ljós kom að Íris hafði fótbrotnað en Framarinn slapp.  Það var búið vel um þau á sjúkrahúsinu og svo fóru Íslendingarnir saman á heimavistina.  Það veitti sko ekkert af því að hafa 3 fararstjóra þennan daginn..

Föstudagur 29. júlí
Frí var frá keppni á föstudeginum en þess í stað var farið í skemmtigarðinn Alton Towers.  Ákveðið var að Linda og Hanna færu með hópinn í skemmtigarðinn en Elli og Bjössi með Írisi aftur á sjúkrahúsið til að hitta beinasérfræðing.  Já, Íris var heldur niðurlút þegar hún komst að því að hún gæti ekki farið í skemmtigarðinn með vinkonum sínum.  Hún fékk þó sárabót því skipuleggjendur mótsins höfðu fengið leyfi fyrir þau þrjú til að fara og skoða Akademíuna hjá Liverpool.  Bjössa og Ella þóttu mikið til koma en Íris hefði nú heldur viljað fara í skemmtigarðinn.  Eftir Akademíuna fékk Íris svo að fara í Liverpool-búðina til að versla, Elli var svo búinn að skipuleggja sér ferð á Anfield fyrir hana á laugardeginum fyrir leik.

Um kvöldið var svo diskó, þar voru náttúrulega okkar stelpur í aðalhlutverki.  Stelpurnar skemmtu sér saman en þurftu að fara snemma upp á herbergi vegna leiks í undanúrslitum daginn eftir og þá kom í ljós hversu vinsælar þær voru vegna þess að þegar þær yfirgáfu samkomuna þá fjaraði diskótekið út.


Fríður hópur í Liverpool.

Laugardagur 30. júlí
Á laugardeginum var leikið í undanúrslitum og lék Keflavík við Everton.  Stelpurnar sem höfðu staðið sig svo vel í keppninni komu ekki tilbúnar í leikinn og lentu undir 2-0 eftir 7 mínútur.  Þær náðu sér einfaldlega ekki á strik og endaði leikurinn 6-3 fyrir Everton.  Við gátum þó huggað okkur við það að stelpurnar skoruðu þó einu marki meira en meistaraflokkur karla gerði í Evrópukeppninni á sínum tíma á móti Everton.

Eftir þennan leik var það ljóst að Keflavík myndi spila um 3.-4. sæti í keppninni við Paris Girls vinkonur okkar.

Sunnudagur 31. júlí
Leikurinn hófst kl.10 við Paris Girls.  Okkar stelpur voru nú heldur smeykar við þær enda var leikið af hörku.  Í stuttu máli sagt töpuðum við þessum leik 2-0.  Á eðlilegum degi hefðum við átt að vinna þessar stelpur en svo fór sem fór og 4. sætið í Liverpool-Knowsley mótinu 2005 staðreynd.

Eftir leikinn var ákveðið að fara á Albert Dock í skoðunarferð þar sem Bítlasafnið var skoðað að því loknu fórum við aftur á heimavistina og fengu þá stelpurnar frjálsan tíma enda síðasta kvöldið og keppni lokið.

Mánudagur 1. ágúst - heimleið
Við vöknuðum snemma til að taka saman farangur og borða morgunverð áður en haldið var af stað.  Á leiðinni heim var komið við í Manchester og Old Trafford völlurinn skoðaður, þar var einnig verslað.  Við borðuðum hádegismat á Red Café en það er matsölustaður á Old Trafford.  Að því loknu var haldið af stað heim á leið og löng rútuferð til London fyrir höndum.  Ferðalagið gekk vel og fararstjórar önduðu léttar þegar allir voru búnir að koma sér vel fyrir í Flugleiðavél á leið heim.


Af einhverri ástæði vildi þessi maður ekki láta
taka mynd af sér á heimavelli Machester United.

Eftirmáli
Fararstjórar voru sammála um það að ferð sem þessi er mikil vinna, ekki síst þar sem hópur á við þennan með fullt af fjörugum og kátum stúlkum fær jafn mikla athygli og varð raunin.  Einnig getur ýmislegt komið upp á í keppnisferðum eins og við fengum að reyna á fimmtudeginum.  En skemmtileg var hún og fuku mörg góð gullkorn sem verða geymd en ekki gleymd til dæmis eins og „má bjóða þér djúpur“, „þakka þér fyrir að deila þessu með mér, núna líður mér miklu betur“, „fimm fræknu“ og fleiri góðar.

Við erum viss um að þær sem fóru í þessa ferð sumarið 2005 eiga ljúfar minningar frá Liverpool og vonandi líka hetjan sem fótbrotnaði.

Björn Kristinsson,
fararstjóri.