Ferðasaga þjálfara til Mainz
Eins og flestir vita þá lék Keflavík gegn Mainz 05 í Evrópukeppni félagsliða (UEFA) í sumar. Mikil vináttutengsl hafa myndast á milli félagana eftir þessa leiki, t.a.m. bauð Mainz 05 knattspyrnudeildinni að senda tvo þjálfara í heimsókn og kynna sér þjálfun og aðstæður hjá klúbbnum. Var mér Elis Kristjánssyni (unglingaþjálfari) og Kristni Guðbrandssyni (þjálfari 2. flokks og aðstoðarþjálfari meistaraflokks) boðið að fara þessa ferð og var hún þegin með þökkum.
Mánudaginn 10. október var flogið til Frankfurt. Við komuna þangað tók Dariuz á móti okkur en hann átti eftir að reynast okkur vel. Um hálftíma tók að keyra frá flugvellinum til Mainz. Þar var byrjað á að fara á leikvöllinn og æfingasvæðin þar sem allt var skoðað hátt og lágt. Þegar það var búið var okkur skutlað á Hotel Contel sem varð okkar heimili næstu sex daga. Það tók okkur ekki nema fimm mínutur að labba frá hótelinu á völlinn. Eftir að hafa komið okkur fyrir og hvílst í smátíma var rölt á völlinn og fylgst með æfingu hjá aðalliðinu. Þjálfari Mainz 05 Jurgen Klopp gaf sér tíma í að heilsa upp á okkur áður en æfingin hófst. Það sem vakti þó mesta furðu okkar var hvað mikið af fólki var að fylgjast með æfingu. Þegar við spurðum hvort þetta væri algengt var svarið að Mainz 05 væri mjög heimilislegur klúbbur og væri fyrir aðdáendur sína. Því geta allir komið af götunni og kíkt á æfingu. Æfingar hjá Mainz 05 hófust ekki fyrr en eftir hádegi sama hvort um yngstu iðkendurna eða þá eldri var að ræða.
Frægustu mennirnir í Mainz: Elis, Jurgen og Kiddi.
Um tvöleitið á þriðjudeginum vorum við mættir á svæðið. Byrjað var á að fylgjast með þeim yngstu sem eru sjö ára og rætt við yfirþjálfara yngri flokka. Fjöldinn á æfingu taldi ekki nema tólf. Ástæðan fyrir því að ekki voru fleiri á æfingu var sú að ekki fá allir að æfa. Ef einhver nýr mætir á æfingu og þjálfarinn þarf að eyða miklum tíma í að aðstoða hann og koma honum í skilning um út á hvað þetta gengur er rætt við foreldra og þeim tilkynnt að viðkomandi sé ekki tilbúinn og verði að prófa aftur seinna. Þó greiða foreldrar einhver æfingagjöld. Eftir að við Kiddi höfðum labbað á milli æfingasvæða og horft á æfingar hjá öllum flokkum og klukkan að verða sjö þá kallaði Tobiaz á okkur. Hann er n.k. fjölmiðlafulltrúi Mainz 05 og tilkynnti okkur að forseti félagsinns Harald Strutz og Christian Heidel framkvæmdastjóri vilji hitta okkur. Eftir að hafa heilsað upp á þá félaga var rölt út á aðalvöll þar sem við vorum formlega boðnir velkomnir og okkur færðar gjafir í því tilefni. Þessi heimsókn okkar þótti greinilega merkileg því viðstaddir voru blaðamenn og ljósmyndarar. Var tekið viðtal við okkur og myndir teknar sem birtust í blöðum daginn eftir. Nú fór frægðarljós okka að skína í Mainz borg!
Sama rútína var á miðvikudeginum, þ.e.a.s. að fylgjast með æfingum. Þegar að við mættum á svæðið skildum við ekkert í því að allt það fólk sem mætt var á staðinn heilsaði okkur. Til okkar kom maður sem sagði að viðtal við okkur væri í blöðunum. Þarna kom skýringin, það kom líka í ljós að við vorum orðnir jafn vinsælir og leikmenn Mainz 05 að við héldum þegar fólk fór að biðja okkur um eiginhandaráritun, ekki leiðinlegt. Þessi maður sem ræddi við okkur vissi bókstaflega allt um Íslendingana í þýska handboltanum. En nú var leikur hjá „second team“ eins og þeir kalla varaliðið. Byrjað var á að sitja töflu- og leikmannafund þar sem að Peter Neustadter fyrrum leikmaður og nú þjálfari fór yfir leikkerfi og hvað yrði lagt upp með í viðkomandi leik. Þó að við skildum lítið í þýskunni vissum við vel út á hvað þessar útskýringar gengu og til hvers var ætlast af leikmönnum. Að fundi loknum var síðan ekið til Ingelham, sú ferð tók ekki nema tuttugu mínutur. Vorum við ásamt liðinu mættir vel tveimur tímum fyrir leik. Leikurinn var nú ekki skemmtilegur á að horfa en Mainz 05 fór með sigur 2-0. Eftir leik var okkur og leikmönnum boðið í mat.
Á fimmtudeginu eftir æfingar hjá yngri flokkum og áður en æfing hjá aðalliðinu byrjaði áttum við um klukkutíma spjall við Jurgen Klopp þjálfara. Mikill fróðleiksmoli og mjög heilsteyptur náungi sem er algjörlega niðri á jörðinni þrátt fyrir mikla velgengni með lið sitt en hann hefur einmitt gert stórkostlega hluti með þetta lið. Eftir fund okkar ræddum við Kiddi um hvað hann væri mikil persóna og ekki myndi það koma okkur á óvart að hann ætti eftir að verða enn stærra nafn í þýska boltanum. Hann er kornungur og yngsti þjálfarinn í þýsku deildinni og í guðatölu hjá aðdáendum Mainz 05.
Föstudagurinn var síðasti dagur okkar í að fylgjast með æfingum í þessari ferð sem var búin að vera frábær í alla staði. Það sem við vorum hvað mest hissa á eftir að hafa fylgst með hvað þeir eru að gera þessa viku var að æfingarnar sjálfar eru ekkert öðruvísi en við erum að gera heima, mjög mikið um endurtekningar þó. En aftur á móti er aginn á allt öðru plani en hjá okkur og það er mál sem að við þurfum að fara að taka betur á. Þeir eiga eflaust auðveldara með að byggja upp aga þar sem að tveir til þrír þjálfarar eru með hvern flokk, þá skiptir ekki máli hvort tólf eða fjörutíu krakkar eru á æfingu. Þegar við tjáðum þeim að við værum oftast einir með yfir þrjátíu krakka hristu þeir bara hausinn og spurðu, „hvað gerið þið? Hendið þið ekki bara bolta inn á völlinn og segið þeim að fara í fótbolta“ og hlógu svo. En okkur hlakkaði þó töluvert til laugardagsins, leikur í Bundesligunni, Mainz 05 gegn Bayer Leverkusen.
Þeir yngstu á æfingu hjá Mainz 05.
Laugardagurinn rann upp og var arkað snemma á völlinn til að skoða og sjúga í sig stemminguna sem var fyrir utan leikvanginn. Við vorum þess heiðurs aðnjótandi að fá VIP-passa á leikinn með öllu tilheyrandi. Er við gengum til sætis var leikvangurinn orðinn fullur eða 22 þúsund manns og stemmningin gríðarleg. Til gamans má geta þess að Rudy Völler fyrrum landliðsþjálfari Þýskalands sat í sæti fyrir framan okkur og var hann púaður niður af stuðningsmönnum Mainz 05 þegar þulur vallarins tilkynnti veru hans á vellinum. Rétt áður en leikurinn hófst ómaði í hátalarakerfi vallarins fínn söngur við svo fallegt lag að hjörtu okkar Kidda tóku kipp og tárin tóku að streyma niður kinnar okkar. Var unaðslegt að heyra og sjá þegar 22 þúsund manns lyftu treflum sínum á loft og sungu YOU’LL NEVER WALK ALONE. Þetta var svo fallegt að ég hélt að við værum staddir á Anfield! Nóg um það, Mainz 05 sigraði leikinn 3-1 og var þetta fyrsti heimasigur þeirra í deildini. Eftir leik höfðu þeir Jurgen Klopp og Harald Strutz á orði við okkur að við þyrftum að koma á alla heimaleiki sem eftir væru því við værum soddann lukkudýr.
Á sunnudeginum var gert klárt fyrir heimferð. En áður en okkur var ekið á flugvöllinn áttum við að mæta kl.11:00 á völlinn þar sem kveðjustund átti að eiga sér stað. Voru okkur enn og aftur færðar gjafir, m.a. liðstreyju, derhúfu og veglega afmælisbók um sögu Mainz 05 sem félagið gaf út í tilefni 100 ára afmælis síns í ár. Við gátum ekki verið minni menn og dreifðum Keflavíkurtreflum vinstri hægri við mikla hrifningu. Þá vonuðust þeir Mainz-menn til þess að klúbbarnir ættu eftir að tengjast enn sterkari böndum. Við þökkuðum kærlega fyrir gestrisni þeirra og hversu vel þeir tóku á móti okkur og vildu allt fyrir okkur gera til að dvölin yrði sem ánægjulegust. Var okkur síðan ekið á flugvöllinn þar sem vél frá Icelandair beið spennt yfir því að fá okkur um borð.
Elis Kristjánsson