Fréttir

Knattspyrna | 27. júlí 2007

FH - Keflavík á laugardag kl. 16:00

Það verður sannkallað uppgjör á Kaplakrikavelli þegar Íslandsmeistarar FH taka á móti Keflavík laugardaginn 28. júlí kl. 16:00.  Sigri FH-ingar er liðið komið með öruggt forskot á toppi Landsbankadeildarinnar og það er því mikið í húfi.   En okkar menn mæta öruggir ákveðnir til leiks enda mikilvægt að ná stigi eða stigum úr leiknum til að halda spennu í toppbaráttu deildarinnar.  Dómari leiksins verður Jóhannes Valgeirsson, aðstoðardómarar þeir Sigurður Óli Þórleifsson og Rúnar Steingrímsson og eftirlitsmaður KSÍ er Ingi Jónsson.

Keflavík og FH hafa leikið 35 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1975.  Keflavík hefur unnið 8 leiki, FH hefur unnið 15 en jafntefli hefur orðið í 12 leikjum.  Markatalan er 45-53, FH-ingum í vil.  Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 6-1 sigur árið 1976 en stærsta tap gegn FH kom árið 1993 þegar FH vann 5-1 í Hafnarfirði.  Fimm leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hefur skorað gegn FH í efstu deild; Þórarinn Kristjánsson og Baldur Sigurðsson hafa skorað tvö mörk hvor og þeir Símun Samuelsen, Magnús Þorsteinsson og Guðmundur Steinarsson hafa skorað eitt mark hver gegn FH.

Liðin hafa einnig mæst sjö sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1972 en síðast árið 2000.  Hvort lið hefur unnið 3 leiki en einum lauk með jafntefli.  Markatalan er 7-5 fyrir Keflavík.  Guðmundur Steinarsson hefur skorað eitt bikarmark gegn FH.  Það var í leik liðanna árið 2000 sem lauk með 1-1 jafntefli áður en FH-ingar sigruðu í langri og strangri vítaspyrnukeppni.

Liðin mættust fyrr í sumar í 2. umferð Landsbankadeildarinnar og unnu FH-ingar þá 2-1 á Keflavíkurvelli.  Arnar Gunnlaugsson og Matthías Guðmundsosn skoruðu mörk gestanna en Símun Samuelsen fyrir Keflavík.

Nokkur tengsl hafa verið milli Keflavíkur og FH í gegnum árin.  Þess má geta að Albert Guðmundsson og sonur hans Ingi Björn þjálfuðu bæði liðin á sínum tíma.  Meðal leikmanna sem hafa leikið fyrir bæði liðin eru Þorsteinn Bjarnason, Jón Þorgrímur Stefánsson, Kristján Hilmarsson, Valþór Sigþórsson og bræðurnir Daníel og Grétar Einarssynir.

Úrslit í leikjum FH og Keflavíkur í Hafnarfirði hafa orðið þessi undanfarin ár:

2006

FH - Keflavík

2-1 Sjálfsmark
2005

FH - Keflavík

2-0
     2004    

FH - Keflavík

1-1 Sjálfsmark
2002

FH - Keflavík

0-0
2001

FH - Keflavík

2-2 Þórarinn Kristjánsson
Guðmundur Steinarsson
1995

FH - Keflavík

2-2 Róbert Sigurðsson 2
1994

FH - Keflavík

2-1 Ragnar Margeirsson
1993

FH - Keflavík

5-1 Kjartan Einarsson
1989

FH - Keflavík

2-1 Kjartan Einarsson
1987

FH - Keflavík

2-1 Sigurjón Sveinsson