Fréttir

FH - Keflavík á sunnudag kl. 19:15
Knattspyrna | 9. maí 2015

FH - Keflavík á sunnudag kl. 19:15

Næsti leikur í Pepsi-deildinni er um helgina en þá heimsækja okkar menn FH í 2. umferð deildarinnar.  Leikurinn verður á Kaplakrikavelli sunnudaginn 10. maí kl. 19:15.

Keflavík tapaði 3-1 fyrir Víkingi í fyrstu umferð deildarinnar í ár en FH vann KR með sömu markatölu.

Dómararnir
Dómari leiksins verður Þóroddur Hjaltalín, aðstoðardómarar þeir Áskell Þór Gíslason og Smári Stefánsson og eftirlitsmaður KSÍ er Ari Þórðarson.

Efsta deild
Keflavík og FH hafa leikið 50 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1975.  Keflavík hefur unnið 10 leiki, FH hefur unnið 24 leiki en jafntefli hefur orðið í 16 leikjum.  Markatalan er 62-86, FH-ingum í vil.  Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 6-1 sigur árið 1976 en stærstu töpin gegn FH komu árið 1993 þegar FH vann 5-1 í Hafnarfirði og árið 2013 unnu FH-ingar 4-0 sigur á heimavelli okkar.  Mesti markaleikur liðanna var á Kaplakrikavelli árið 2010 þegar FH vann 5-3. 

Liðin hafa leikið 25 sinnum á heimavelli FH-inga í efstu deildinni.  Þar hefur Keflavík unnið tvo leiki, átta hefur lokið með jafntefli en FH hafa unnið 15 leikjanna.  Markatalan í útileikjum gegn FH er 27-49 fyrir heimamenn.

Keflavík hefur ekki gengið vel á heimavelli FH í gegnum árin og aðeins unnið þar tvo leiki í efstu deild.  Fyrri sigurinn kom árið 1977 og sé seinni árið 1980.

Fjórir leikmenn sem nú eru í leikmannahópi Keflavíkur hafa skorað gegn FH í efstu deild; Magnús Þorsteinsson hefur skorað fimm mörk og Hólmar Örn Rúnarsson, Guðjón Árni Antoníusson og Jóhann B. Guðmundsson eitt mark hver.

Alls hafa 37 leikmenn skorað fyrir Keflavík gegn FH í efstu deild.  Þar er Magnús Þorsteinsson efstur á blaði með fimm mörk en þar á eftir koma fimm leikmenn með þrjú mörk hver.

B-deild
Keflavík og FH hafa aldrei leikið saman í B-deildinni.  Keflavík lék þó gegn forvera FH, Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar, á upphafsárum Keflavíkur í deildarkeppninni.  Keflavík og ÍBH léku samtímis í næstefstu deild árin 1956 og 1962 og reyndar einnig í efstu deild árið 1958.  Frá árinu 1963 léku Hafnfirðingar síðan undir merkjum FH og Hauka.

Bikarkeppnin
Liðin hafa einnig mæst ellefu sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1972 en síðast árið 2013. Bæði lið hafa unnið fimm leiki en einum lauk með jafntefli.  Markatalan er 17-13 fyrir Keflavík.  Haraldur Freyr Guðmundsson hefur gert tvö bikarmörk gegn FH-ingum og Guðjón Árni Antoníusson eitt.

Síðast
Liðin mættust að sjálfsögðu tvisvar í Pepsi-deildinni síðasta sumar.  Fyrri leiknum á Nettó-vellinum lauk með 1-1 jafntefli þar sem Elías Már Ómarsson kom okkar liði yfir en Atli Viðar Björnsson jafnaði fyrir FH.  Lið FH vann síðan seinni leikinn í Kaplakrika 2-0 en þar gerðu okkar menn sjálfsmark og Steven Lennon bætti við öðru marki.

Bæði lið
Nokkur tengsl hafa verið milli Keflavíkur og FH í gegnum árin og fyrir þetta tímabil gengu þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árni Antoníusson aftur til liðs við okkur eftir að hafa leikið með FH.  Þess má geta að Albert Guðmundsson og sonur hans Ingi Björn þjálfuðu bæði liðin á sínum tíma.  Meðal annarra leikmanna sem hafa leikið fyrir bæði liðin eru Gunnleifur Gunnleifsson, Alen Sutej, Þorsteinn Bjarnason, Jón Þorgrímur Stefánsson, Kristján Hilmarsson, Valþór Sigþórsson og bræðurnir Daníel og Grétar Einarssynir.

Síðustu leikir
Úrslit í leikjum FH og Keflavíkur í Hafnarfirði hafa orðið þessi undanfarin ár:

Dags. Keppni Áh. Úrslit Mörk Keflavíkur
20.18.2014 A-deild 1393 2-0  
06.05.2013 A-deild 1789 2-1 Marjan Jugovic 48.
30.07.2013 Bikarkeppni 930 3-2 Haraldur Freyr Guðmundsson 44.
Magnús Þór Magnússon 90.
03.09.2012 A-deild 1030 3-0  
  Jóhann Birnir Guðmundsson fékk rautt spjald
07.08.2011 A-deild 1580 1-0  
19.09.2010 A-deild 1858 5-3 Haukur Ingi Guðnason 10.
Bjarni Hólm Aðalsteinsson 17.
Brynjar Örn Guðmundsson 51.
18.07.2009 A-deild 1038 2-2 Guðjón Árni Antoníusson 42.
Magnús Þorsteinsson 90.
  Lasse Jörgensen varði vítaspyrnu Matthíasar Vilhjálmssonar
21.09.2008 A-deild 2107 3-2 Magnús Þorsteinsson 77.
Magnús Þorsteinsson 81.
28.07.2007 A-deild 2166 3-2 Baldur Sigurðsson 6.
Marco Kotilainen 40. (v)
05.06.2006 A-deild 2162 2-1 Sjálfsmark 69.
  Keflavík skoraði sjálfsmark og misnotaði tvær vítaspyrnur
08.07.2005 A-deild 986 1-0