FH - Keflavík í kvöld kl. 20:00
Þá er komið að enn einum stórleiknum þegar okkar menn heimsækja topplið Landsbankadeildarinnar, Íslandsmeistara FH. Leikurinn fer fram á Kaplakrikavelli og við vekjum athygli á því að flautað verður til leiks kl. 20:00 en leikurinn verður sýndur beint á Sýn. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um að það er erfitt verkefni sem bíður okkar í kvöld en FH-liðið hefur unnið alla leiki sína það sem af er tímabilinu. En okkar menn hafa átt góða leiki, eru í 3. sæti deildarinnar og eru því hvergi bangnir. Dómari leiksins verður Jóhannes Valgeirsson, aðstoðardómarar þeir Pjetur Sigurðsson og Einar Sigurðsson, varadómari er Erlendur Eiríksson og eftirlitsmaður Helgi Þorvaldsson.
Keflavík og FH hafa leikið 31 leiki í efstu deild, þann fyrsta árið 1975. Keflavík hefur unnið 7 leiki, FH hefur unnið 12 en jafntefli hefur orðið í 12 leikjum. Markatalan er 41-46, FH-ingum í vil. Stærsti sigur Keflavíkur í leikjum liðanna er 6-1 sigur árið 1976 en stærsta tap gegn FH kom árið 1993 þegar FH vann 5-1 í Hafnarfirði. Einn leikmaður sem nú er í leikmannahópi Keflavíkur hefur skorað gegn FH í efstu deild, Guðmundur Steinarsson hefur skorað eitt mark gegn FH.
Liðin hafa einnig mæst sjö sinnum í bikarkeppni KSÍ, fyrst árið 1972 en síðast árið 2000. Hvort lið hefur unnið 3 leiki en einum lauk með jafntefli. Markatalan er 7-5 fyrir Keflavík. Guðmundur Steinarsson hefur skorað eitt bikarmark gegn FH. Það var í leik liðanna árið 2000 sem lauk með 1-1 jafntefli áður en FH-ingar sigruðu í langri og strangri vítaspyrnukeppni.
Liðin mættust fyrr í sumar í 1. umferð Landsbankadeildarinnar og unnu FH-ingar þá 3-0 á Keflavíkurvelli. Tryggvi Guðmundsson, Ármann Smári Björnsson og Brian O´Callaghan skoruðu mörkin; Brian vinur okkar reyndar í eigið mark.
Nokkur tengsl hafa verið milli Keflavíkur og FH í gegnum árin. Þess má geta að Albert Guðmundsson og sonur hans Ingi Björn þjálfuðu bæði liðin á sínum tíma. Þorsteinn Bjarnason er nú markmannsþjálfari FH en hann er næstleikjahæsti leikmaður Keflavíkur frá upphafi með 180 leiki í efstu deild. Jón Þorgrímur Stefánsson, sem nú er einn sterkasti leikmaður FH-liðsins, lék 5 leiki með Keflavík í efstu deild árið 1996.
Úrslit í leikjum FH og Keflavíkur í Hafnarfirði hafa orðið þessi undanfarin ár:
2004 |
FH - Keflavík |
1-1 | Sjálfsmark | ||
2002 |
FH - Keflavík |
0-0 | |||
2001 |
FH - Keflavík |
2-2 | Þórarinn Kristjánsson Guðmundur Steinarsson | ||
1995 |
FH - Keflavík |
2-2 | Róbert Sigurðsson 2 | ||
1994 |
FH - Keflavík |
2-1 | Ragnar Margeirsson | ||
1993 |
FH - Keflavík |
5-1 | Kjartan Einarsson | ||
1989 |
FH - Keflavík |
2-1 | Kjartan Einarsson | ||
1987 |
FH - Keflavík |
2-1 | Sigurjón Sveinsson | ||
1986 |
FH - Keflavík |
2-1 | Valþór Sigþórsson | ||
1985 |
FH - Keflavík |
1-1 | Óli Þór Magnússon |