Fínn útisigur í Laugardalnum
Keflavík vann góðan sigur á Valsmönnum þegar liðin mættust í 2. umferð Pepsi-deildarinnar. Leikurinn fór fram á gervigrasvellinum í Laugardal og þar var aðeins skorað eitt mark. Það gerði Magnús Þórir Matthíasson undir lok fyrri hálfleiks eftir góðan undirbúning Jóhanns Birnis Guðmundssonar. Valsmenn sóttu heldur meira eftir það en komust lítið áleiðis gegn sterkri vörn okkar manna.
Þó lítið sé búið af mótinu má taka fram að Keflavík er nú í 2. sæti deildarinnar og hefur sex stig eftir tvo leiki eins og Fjölnir og Stjarnan.
Næsti leikur er heimaleikur gegn Breiðabliki á Nettó-vellinum mánudaginn 12. maí kl. 19:15.
-
Þetta var 94. leikur Keflavíkur og Vals í efstu deild. Keflavík hefur nú unnið 32 leiki en Valur hefur sigrað í 36 leikjum, 26 sinnum hefur orðið jafntefli. Markatalan er 135-148 fyrir Val.
-
Magnús Þórir Matthíasson gerði 9. mark sitt fyrir Keflavík í efstu deild en þau hafa komið í 74 leikjum. Þetta var fyrsta mark Magnúsar gegn Val.
-
Bojan Stefán Lubicic og Sigurbergur Elísson voru í byrjunarliðínu en þeir komu inn á sem varamenn i fyrstu umferðinni.
-
Magnús Þorsteinsson og Paul McShane komu inn á sem varamenn eftir að hafa ekki tekið þátt í fyrsta leiknum. Paul lék síðast með Keflavík í efstu deild í ágúst 2010.
-
Andri Fannar Freysson kom inn í leikmannahópinn en kom ekki við sögu í leiknum.
-
Keflavík hafði tapað tveimur siðustu útileikjum gegn Val í efstu deild 0-4 enn hafði áður ekki tapað í tíu leikjum í röð á heimavelli Vals.
-
Keflavík vann tvo fyrstu leiki sína í deildinni í fyrsta sinn síðan 2010. Þá vann liðið fyrstu þrjá leikina.
-
Kristján Guðmundsson hefur mætt fyrrum lærisveinum sínum í tveimur fyrstu umferðum Pepsi-deildarinnar. Hann þjálfaði Val árin 2011 og 2012 og Þór 1999-2002.
Myndir: Eygló Eyjólfsdóttir og Jón Örvar Arason