Fjarðabyggð-Keflavík á laugardag kl. 14:00
Næsti leikur í Inkasso-deildinni er útileikur gegn Fjarðabyggð á laugardaginn. Leikurinn verður í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði og hefst kl. 14:00. Keflavík er með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar en Fjarðabyggð er með þrjú. Það er Sigurður Óli Þórleifsson sem sér um dómgæslu í leiknum og honum til aðstoðar verða Viatcheslav Titov og Tómas Orri Hreinsson. Eftirlitsmaður KSÍ er Viðar Helgason.
Þetta verður fyrsti leikur þessara félaga í deild eða bikar en Fjarðabyggð hóf leik árið 2001 þegar KVA og Þróttur Neskaupstað sameinuðust. Keflavík og Fjarðabyggð léku reyndar í deildarbikarnum árin 2008 og 2015 og þar sigruðu Austfirðingar í báðum leikjunum. Þess má geta að Keflavík og Þróttur Neskaupstað léku saman í B-deildinni árið 1981 og þá vann Keflavík báða leiki liðanna 1-0. Magnús Garðarsson gerði eina mark leiksins á Keflavíkurvelli en Skúli Rósantsson skoraði sigurmarkið á Neskaupstað.