Fréttir

Knattspyrna | 17. nóvember 2005

Fjáröflun til styrktar Hugin Heiðari

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur hrundið í framkvæmd fjáröflun til styrktar Hugin Heiðari Guðmundssyni sem fæddist þann 18. nóvember 2004 á sjúkrahúsinu í Keflavík og verður því 1 árs á morgun föstudag.  Foreldrar hans eru Fjóla Ævarsdóttir og Guðmundur Guðbergsson.  Strax eftir fæðingu kom í ljós að Huginn Heiðar var með alvarlegan lifrasjúkdóm (risafrumulifrabólga).  Þann 16. apríl héldu Huginn Heiðar og foreldrar hans til Pittsburgh í Bandaríkjunum í lifraskipti sem fóru fram 17. maí og gat Huginn Heiðar þegið lifur frá móður sinni.  Aðgerðin gekk vel en mikil veikindi fylgdu í kjölfarið og varð því vera þeirra í Bandaríkjunum mun lengri en þau höfðu gert ráð fyrir.  Heimkoma þeirra var 11. október og dvelur Huginn Heiðar nú á Barnaspítala Hringsins.  Foreldrar Hugins hafa lagt mikla vinnu í unglingastarf Knattspyrnudeildar Keflavíkur.  Okkur er því ljúft að hrinda af stað fjársöfnun þeim til handa til þess að standa straum af miklu tekjutapi og kostnaði sem fylgir veikindum Hugins Heiðars.

Stjórnarmenn og stuðningsfólk Keflavíkur hafa undir höndum sérstakt eyðublað sem fólk og fyrirtæki getur skráð sig á og lagt þessu góða málefni lið. Lögð er áherla á að fólk styrki um þá upphæð sem það ræður við, frá 1.000 krónum.  Sparisjóðurinn í Keflavík er fjárgæsluaðili söfnunarinnar og þeir sem hafa heimabanka geta lagt beint inn á reikning söfnunarinnar í Sparisjóðnum á eftir farandi reikning: 1109-05-410710.  Kennitalan er 610269-3386.

Þessi ungi Keflvíkingur og fjölskylda hans fengju varla betri afmælisgjöf á eins árs afmæli Hugins Heiðars sem er 18. nóvember en góðan stuðning okkar allra.  Nú sýnum við úr hverju við Keflvíkingar erum gerðir og hverju við  getum áorkað þegar við stöndum samann.                            

Knattspyrnudeild Keflavíkur

Myndin er af vef Víkurfrétta.