Fjölnir - Keflavík á mánudag kl. 18:00
Keflavík og Fjölnir mætast í 17. umferð Pepsi-deildarinnar mánudaginn 25. ágúst. Leikur liðanna fer fram á Fjölnisvelli og hefst kl. 18:00. Bæði lið eru í neðri hluta deildarinnar og hafa átt erfitt uppdráttar í síðustu leikjum. Stigin í leiknum eru því dýrmæt og ljóst að það verður tekist á um þau. Fyrir leikinn er Keflavík í 6.-8. sæti deildarinnar með 18 stig en Fjölnismenn eru í 10.-11. sæti með 15 stig. Dómari leiksins verður Kristinn Jakobsson, aðstoðardómarar Gunnar Sverrir Gunnarsson og Steinar Berg Sævarsson og eftirlitsmaður KSÍ verður Einar Örn Daníelsson.
Efsta deild
Keflavík og Fjölnir hafa leikið fimm leiki í efstu deild, árin 2008 og 2009 og svo aftur í ár. Keflavík hefur unnið tvo leikjanna og Fjölnir einn en tveimur leikjum hefur lokið með jafntefli. Markatalan er 10-8 fyrir Keflavík. Magnús Þorsteinsson hefur skorað tvö mörk gegn Fjölni og Hörður Sveinsson, Magnús Þórir Matthíasson og Jóhann B. Guðmundsson eitt hver.
Bikarkeppnin
Liðin hafa einu sinni mæst í bikarkeppninni en það var árið 2005. Liðin mættust þá í 32 liða úrslitum á Fjölnisvelli og vann Keflavík nauman 4-3 sigur. Guðmundur Steinarsson skoraði tvö mörk og þeir Hólmar Örn Rúnarsson og Stefán Örn Arnarson eitt hvor. Atli Guðnason skoraði tvö marka Fjölnis og Tómas Leifsson eitt.
Síðast
Liðin léku fyrr í sumar í Pepsi-deildinni og þá á Nettó-vellinum. Þeim leik lauk með 1-1 jafntefli þar sem Hörður Sveinsson kom Keflavík yfir en Christopher Paul Tsonis jafnaði fyrir Fjölni.