Fjör hjá yngstu börnunum í 8. flokki Keflavíkur
Í vetur hafa verið starfræktar æfingar fyrir allra yngstu iðkendurnar, 3-5 ára, á vegum knattspyrnudeildar Keflavíkur. Boðið var upp á tvær æfingar í viku, annars vegar í íþróttahúsinu við Sunnubraut þar sem æfingar voru meira í anda íþróttaskóla með áherslu á knattspyrnu og hins vegar í Reykjaneshöll þar sem knattspyrnan var í hávegum höfð. Æfingatímabilinu lauk nú í desember og voru myndirnar hér að neðan teknar á síðustu æfingum tímabilsins. Sú hefð hefur skapast s.l. 10 ár að iðkendur fái merktan Keflavíkurbol á lokaæfingu ársins merktan SPKEF. Í ár voru það bílaleigan Geysir, Merkiprent og Sportmenn sem voru styrktaraðilar og er þeim þakkað sérstaklega fyrir stuðninginn sem svo sannarlega er ekki sjálfsagður hlutur á þessum tímum. Nýtt námskeið hefst í lok janúar á næsta ári og verður auglýst hér á heimasíðunni í upphafi árs. Þjálfarar 8. flokks eru Andrés Þórarinn Eyjólfsson og Ragnar Steinarsson, aðstoðarþjálfari er Arnþór Guðjónsson.
Hverjir eru bestir? KEFLAVÍK !!!